FréttirSkrá á póstlista

23.05.2013

Úthafskarfakvótarnir teknir á 12 sólarhringum

Þerney RE er nú á landleið eftir að hafa lokið við að veiða úthafskarfakvóta ársins, um 650 tonn, og það á aðeins 12 sólarhringum. Hið sama á við um Örfirisey RE en hin tvö skip HB Granda, Helga María AK og Venus HF, sem stundað hafa úthafskarfaveiðarnar eru enn á miðunum. Helga María er nýkomin aftur á veiðislóðina við 200 mílna lögsögumörkin eftir millilöndun í Reykjavík fyrr í vikunni.

Að sögn Kristins Gestssonar, skipstjóra á Þerney, hafa aflabrögðin frá því að veiðar íslenskra skipa máttu hefjast þan 10. maí sl. verið mjög góð.

,,Veiðin fór frekar rólega af stað. Hún jókst síðan og síðustu þrjá til fjóradagana hefur verið glimrandi góð veiði. Karfinn þétti sig í stóra torfu og í raun erum við að tala um svokallaða aðgæsluveiði. Það þýðir að við höfum orðið að gæta þess að stytta holin til þess að fá ekki of mikinn afla. Vinnslugetan hjá okkur er að hámarki 45 til 50 tonn á sólarhring, eftir því hvað er verið að vinna hverju sinni, en á þessum veiðum er 35 tonna afli á sólarhring það sem við ráðum vel við,“ segir Kristinn.

Aðstæðurnar á miðunum úti við 200 mílna lögsögumörkin eru nú allt aðrar og betri en þær voru fyrir réttu ári þegar íslensku skipin máttu hefja veiðar. Í hálfan mánuð fyrir þann tíma var mokveiði á m.a. rússneskum togurum rétt utan línunnar en það er mat manna að kólnun sjávar eftir 10. maí í fyrra hafi orðið til þess að karfinn hafi dreift sér og leitað annað. Kristinn segir sjálfur að hann hafi ekki verið við skipstjórn í vertíðarbyrjun í fyrra en hann segir félaga sína á öðrum skipum vera sammála um að breytingar á sjávarhita hafi valdið því að veiðin hafi dottið niður.

,,Hitastig sjávar ræður öllu um það hvar einstakar fisktegundir halda sig og hvað varðar svokallaðan ,,úthafskarfa“ þá er gríðarlegur munur á gæðunum eftir því á hvaða dýpi er verið að veiða hverju sinni. Yfirborðshiti sjávar er um 8,5°C á veiðislóðinni en við togum yfirleitt á 300 til 500 faðma dýpi og þar hefur hitastigið verið um 4-5°C. Í nótt sem leið þá var kaldara og hitastigið á 500 föðmum fór niður í 3,7°C. Flestir muna eftir umræðunni um sníkjudýr á karfanum en þau virðast ekki þrífast sérstaklega vel þegar komið er niður fyrir 200 faðma dýpi. Við erum að veiða fínasta djúpkarfa og hann er bara betri eftir því sem farið er dýpra. Vegna þess reynum við að sökkva trollinu eins hratt og við getum niður á a.m.k. 300 faðma og þar fyrir neðan er besti og stærsti djúpkarfinn,“ segir Kristinn Gestsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir