FréttirSkrá á póstlista

15.05.2013

Raforkuskömmtun hafði óveruleg áhrif á kolmunnavertíðina

,,Það má segja að við höfum svo að segja náð að klára vertíðina áður en skrúfað var fyrir rafmagnið. Við höfum keyrt fiskmjölsverksmiðjuna á svokallaðri ótryggri raforku en aldrei lent í teljandi vandræðum fyrr en nú. Við fengum að halda rafmagninu fram yfir hádegi sl. mánudag og það munaði ekki miklu að við næðum að bræða síðasta kolmunnaaflann um svipað leyti,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði.

Svo sem fram hefur komið í fréttum er vatnsbúskapur í uppistöðulónum virkjana á Norðurlandi mun lakari en menn hafa átt að venjast undanfarin ár og því hefur þurft að grípa til skerðingar á raforku til stóriðju og fyrirtækja sem verið hafa með samninga um kaup á ótryggri raforku. Næg raforka er til í landinu en flutningsgetan frá sunnanverðu landinu og norður yfir heiðar er hins vegar ekki meiri en svo horfur eru á að skammta þurfi raforku til stórkaupenda næstu vikurnar eða þar til að vatnsstaðan í Hálslóni og Blöndulóni kemst í eðlilegt horf.

Að sögn Sveinbjörns er þetta í fyrsta sinn sem raforkuskortur bitnar að einhverju marki á fiskmjölsverksmiðjum á Norðaustur- og Austurlandi og hann segir það hafa verið lán í óláni að verið hafi verið að vinna síðasta farm vertíðarinnar þegar lokað var fyrir rafmagnið.

,,Fram að þessu hefur okkur alltaf tekist að gráta út viðbótarrafmagn en nú var staðan svo slæm að það gekk ekki. Okkur vantaði hálft megavatt eftir hádegi á mánudag en það var ekki til og því þurfum við að skipta yfir á olíukyndingu á loftþurrkaranum. Það tafði okkur aðeins en samt er ekki annað hægt en að vera sáttur við þá þjónustu sem við höfum fengið fram að þessu,“ segir Sveinbjörn en hann er sömuleiðis sáttur við gang mála á kolmunnavertíðinni. Tekið var á móti rúmlega 19.000 tonnum af kolmunna á Vopnafirði á þeim rúma mánuði sem veiðarnar stóðu yfir en tvívegis lönduðu skip HB Granda afla í Færeyjum vegna veðurs á þessu tímabili.

,,Nú standa yfir stórþrif í verksmiðjunni og síðan verður unnið að viðhaldi hér og í vinnslunni þar til að veiðar á síld og makríl hefjast í sumar. Það ætti að geta orðið í byrjun júlímánaðar. Afskipanir á afurðum hafa gengið vel og um sl. helgi skipuðum við út um 2.000 tonnum af mjöli. Mjölbirgðir eru því ekki miklar,“ sagði Sveinbjörn Sigmundsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir