FréttirSkrá á póstlista

10.05.2013

Ágæt byrjun á úthafskafavertíðinni

Úthafskarfaveiðar íslenskra skipa máttu hefjast á miðnætti sl. og þegar stundin rann upp voru 12 íslenskir frystitogarar komnir á miðin og fóru trollin í sjó strax upp úr miðnættinu. Fjöldi erlendra skipa er á miðunum úti á Reykjaneshryggnum og líkt og oftast áður er veiðin gleggst í upphafi veiðitímabilsins 200 mílna lögsögumörkunum og þar rétt fyrir utan.

Fjögur skip HB Granda, Þerney RE, Örfisirey RE, Venus HF og Helga María AK, eru nú að úthafskarfaveiðum á landhelgislínunni eða rétt þar fyrir utan og að sögn Heimis Guðbjörnssonar, sem er skipstjóri á Helgu Maríu AK í veiðiferðinni, var fyrsta holið klárað laust fyrir kl. 16 dag.

,,Aflinn var um 20 tonn af karfa eftir 12 tíma hol eða rúmlega 1,5 tonn á togtímann. Það þykir gott að fá a.m.k. tonn á togtímann þannig að þetta er mjög góður afli,“ segir Heimir.

Að sögn Heimis hafa einir 15 rússneskir togarar, fjórir til fimm Spánverjar og svipaður fjöldi færeyskra og norskra togara verið á veiðisvæðinu við lögsögumörkin en þær upplýsingar segist hann hafa fengið hjá rússneskum skipstjóra í gær.

,,Það hefur orðið ein stór breyting og það örugglega til batnaðar frá í fyrra. Rússnesku skipin máttu hefja veiðar 26. apríl en samkvæmt reglugerð máttu þau aðeins veiða 15% heildarkvótans fram til 10. maí. Þetta virðist hafa verið virt og á meðan sum skipanna fóru með aflann til Íslands í millilöndun þá héldu önnur sjó hér í tvo til þrjá daga þar sem að þau máttu hefja veiðar að nýju um sl. miðnætti.“

Heimir segir að þegar Rússarnir hófu veiðarnar hafi veiðin verið best rúmar þrjár mílur fyrir utan íslensku lögsögumörkin en síðan hafi karfinn gengið að línunni og inn fyrir hana. Nú sé ágæt veiði innan og utan línu og m.a.s. séu menn byrjaðir að toga norðvestur með línunni en þar hefur enginn reynt veiðar fram að þessu. Heimir segir karfann, sem veiðist vera ágætan, og mest sé um millistóran karfa en einnig verði vart við smærri karfa í bland.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir