FréttirSkrá á póstlista

08.05.2013

Tölvustýrðir andveltitankar settir í Faxa og Lundey

Uppsjávarveiðiskip HB Granda, Faxi RE og Lundey NS, eru nú á Hornafirði en þar verða settir nýir, svokallaðir andveltitankar í bæði skipin. Tankarnir eru tölvustýrðir og eru þeir afrakstur samstarfs Vélsmiðjunnar Foss á Hornafirði og Stefáns Guðsteinssonar verkfræðings.

Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, verður gert hlé á veiðum skipanna þar til að veiðar á norsk-íslensku síldinni og makrílnum hefjast en það verður væntanlega ekki fyrr en komið verður fram í júlí.

,,Tíminn verður notaður til viðhaldsverkefna og slipptöku. Ákveðið var að festa kaupa á andveltitönkum fyrir Faxa og Lundey og verður þeim komið fyrir í skipunum á Hornafirði. Það er þó ekki alveg víst að hægt verði að ljúka öllu varðandi tengingu á tankinum í Faxa á Hornafirði því skipið á pantaða slipptöku í Reykjavík um næstu helgi. Lundey fer síðan í slipptöku í framhaldinu. Ingunn AK fer til Akraness og þar verður tíminn nýttur til að bæta vinnuaðstöðu á dekki auk hefðbundins viðhalds,“ segir Ingimundur.

Karl Sigurjónsson, skipaeftirlitsmaður HB Granda, segir í samtali við heimasíðuna að andveltitankarnir, sem settir verða í Faxa og Lundey, séu sömu gerðar og sambærilegur tankur sem settur var í frystitogarann Venus HF fyrir um ári síðan.

,,Tankurinn í Venusi hefur reynst mjög vel og skipverjar eru sammála um að með tilkomu hans hafi allar hreyfingar skipsins breyst til hins betra. Munurinn á þessum tönkum frá Hornafirði og eldri gerðum er sá helstur að tölvubúnaður fylgist með öllum hreyfingum skipsins og þessi stöðugleikavakt sér um að stýra því hve mikið af sjó er í tanknum og miðla honum á milli hólfa til að vega upp á móti veltingi. Tekið er tillit til þess hve mikið skipið er lestað hverju sinni í stað þess að í eldri gerðum andveltitanka var stillingin og sjómagnið alltaf það sama,“ segir Karl Sigurjónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir