FréttirSkrá á póstlista

06.05.2013

Úrslit í samkeppni um hafnarlistaverk kynnt á morgun

Á morgun kl. 17 verður tilkynnt um úrslit í samkeppni um gerð listaverks á og eða við suðausturgafl nýrrar frystigeymslu sem byggð hefur verið á landfyllingunni austan við fiskiðjuver HB Granda á Norðurgarði við Gömlu höfnina í Reykjavík. Listaverkið mun verða ákveðið kennileiti við innsiglinguna að Gömlu höfninni og fjölbreytt athafnasvæði hennar að norðvestanverðu gegnt Hörpu. Verkið mun verða sýnilegt víða að af hafnarsvæðinu.

Efnt var til forvals vegna samkeppninnar meðal myndlistarmanna sl. haust og var þátttaka góð en 39 umsóknir bárust. Það var einróma niðurstaða forvalsnefndar að fá listamennina Olgu Bergmann, Ólöfu Nordal, Rósu Gísladóttur og Þór Vigfússon til að fullvinna tillögur sínar. Skilafrestur í samkeppninni var 10. apríl sl. og síðan þá hefur dómnefndin, sem skipuð er þremur fulltrúum HB Granda og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra listamanna (SÍM), auk fulltrúa Faxaflóahafna, farið yfir tillögurnar og valið það listaverk sem prýða mun hafnarsvæðið í framtíðinni.

Þegar samkeppnin var kynnt á haustmánuðum var kveðið á um að listamaðurinn, einn eða í samvinnu við annan, ynni að gerð listaverks á suðausturgafl frystigeymslunnar, sjálfstætt verk framan við vegginn og/eða verk sem tengt gæti saman veggflötinn og opið útivistarsvæði austan hússins. Nýbyggingin er 3.800 m2 heildar stærð, þar af er austurgaflinn 412 m2 og svæðið þar fyrir framan er um 1.300 m2. Það er hugsað sem útivistarsvæði með göngustígum, dorgaðstöðu, bekkjum o.fl. Samkeppnin fór fram fram samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM).

Guðný M. Magnúsdóttir er trúnaðarmaður SÍM vegna samkeppninnar. Hún veitir sömuleiðis nánari upplýsingar: Gsm: 892-3188 og netfang: gudnymm@simnet.is . Kynningin á úrslitum í samkeppninnar fer fram í húsakynnum HB Granda í Norðurgarði, gengið inn um aðalinngang.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir