FréttirSkrá á póstlista

22.04.2013

Kolmunnaveiði að glæðast

Ingunn AK er nú á leið til Vopnafjarðar með fullfermi af kolmunna, um 2.000 tonn, og að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra reiknar hann með því að skipið verði komið til hafnar upp úr miðnætti í nótt. Ingunn var rúma tvo sólarhringa á miðunum suður af Færeyjum og kolmunnaveiðin er því greinilega að glæðast eftir fremur rólega vertíðarbyrjun.

,,Við vorum um 70 mílur suður af Færeyjum ásamt einum þremur öðrum skipum frá Íslandi og Færeyjum en rússnesku togararnir voru að veiðum töluvert vestar,“ segir Guðlaugur en að hans sögn var leiðindaveður á veiðisvæðinu. Bræla þegar Ingunn kom á svæðið, síðan lygndi í nokkra tíma áður en það brældi að nýju.

,,Það var allt að 20 m/s vindhraði og töluverður sjór en þó var hægt að stunda veiðarnar. Núna er hins vegar ekkert veiðiveður og það er ekki útlit fyrir að veðrið gangi niður fyrr en eftir tvo til þrjá sólarhringa. Faxi RE var kominn með um 800 tonna afla fyrr í dag og er nú á leiðinni í var við Færeyjar og Lundey NS er á leiðinni út eftir löndun á Vopnafirði.“

Að sögn Guðlaugs fékkst aflinn í veiðiferðinni í alls sex holum og hefur togtíminn styst nokkuð frá því sem var í byrjun vertíðarinnar.

,,Stystu holin okkar voru fimm til sex tímar en við toguðum mest í um 12 tíma í senn,“ segir Guðlaugur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir