FréttirSkrá á póstlista

18.04.2013

HB Grandi með í níunda sinn í Brussel

Sjávarútvegssýningarnar European Seafood Exposition (ESE) og Seafood Processing Europe (SPE) verða formlega opnaðar í Brussel í Belgíu nk. þriðjudag og standa þær yfir dagana 23. til 25. apríl. Það er samdóma álit þeirra, sem gerst til þekkja, að sýningarnar séu stærsti og merkilegasti vettvangur af sínum toga í sjávarútveginum í dag. Að vanda taka fjölmörg íslensk fyrirtæki þátt og þar á meðal er HB Grandi en þetta verður í níunda sinn sem félagið kynnir framleiðsluvörur sínar undir eigin merki á sýningunni.

Að sögn Svavars Svavarssonar, markaðsstjóra HB Granda, er Brusselsýningin hápunkturinn í markaðs- og kynningarstarfi félagsins á hverju ári. Í fyrra fóru 15 starfsmenn HB Granda utan vegna sýningarinnar en í ár verður bætt um betur því alls munu rúmlega 20 starfsmenn standa vaktina í Brussel þá þrjá daga sem sýningin stendur.

,,Brusselsýningin er mjög gott tækifæri fyrir okkur til að eiga gott spjall við alla okkar helstu viðskiptavini og gera okkur dagamun með þeim. Reynslan sýnir sömuleiðis að sýningin er kjörinn vettvangur til að kynnast fulltrúum fjölda fyrirtækja, sem við höfum ekki verið í viðskiptum við, en stofna svo til viðskipta við okkur í framhaldinu. Við verðum áfram með sýningarbásinn okkar (nr. 839-1) í sýningarhöll 6 á því sýningarsvæði sem Íslandsstofa hefur til ráðstöfunar. Uppsetningin verður með hefðbundnum hætti en sú breyting verður reyndar á í ár að við munum sýna listaverkið Sóma eftir Sigrúnu Einarsdóttur glerlistamann á sýningarbásnum en það er verðlaunagripur sem HB Grandi fékk þegar félagið hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2013,“ segir Svavar Svavarsson.

Í fyrra tóku framleiðendur frá meira en 70 löndum þátt í sjávarútvegssýningunum í Brussel. Á heimasíðu sýningarhaldaranna kemur fram að alls hafi rúmlega 25.600 kaupendur, framleiðendur, birgjar og fjölmiðlamenn frá meira en 140 þjóðlöndum sótt sýningarnar heim.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir