FréttirSkrá á póstlista

16.04.2013

5.000 tonn af kolmunna til Vopnafjarðar

Uppsjávarveiðiskip HB Granda komu öll til Vopnafjarðar um helgina eftir fyrstu veiðiferðina á kolmunnamiðin djúpt suður af Færeyjum. Faxi RE kom aðfararnótt laudagardagsins með rúmlega 1.500 tonna afla, Lundey NS á sunnudeginum með um 1.600 tonn og loks Ingunn Ak á aðfararnótt mánudagsins með um 2.000 tonna afla. Samtals bárust því liðlega 5.000 tonn af kolmunna til Vopnafjarðar þessa daga.

,,Það er vertíð hafin að nýju hjá okkur og vonandi dugar kolmunnakvótinn fram í miðjan maí. Við erum að vonast eftir því að ná samfellu í vinnslunni en fiskmjölsverksmiðjan er nú keyrð á fullum afköstum sem eru um 800 tonn af hráefni á sólarhring,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði.

Sveinbjörn segir kolmunnan vera horaðan líkt og jafnan á þessum árstíma en honum finnist stærðin vera betri en í fyrra, þegar nokkuð var um smáan kolmunna á aflanum.

,,Markmiðið er að kvótinn dugi okkur í 30 til 40 daga en þegar honum verður náð þá verður hlé gert á veiðum skipanna þar til veiðar á makríl og norsk-íslenskri síld hefjast. Það verður ekki fyrr en um mánaðamótin júní og júlí,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir