FréttirSkrá á póstlista

12.04.2013

Ágæt ufsaveiði fyrir austan

,,Við vorum að ljúka við fyrsta holið hér fyrir austan. Þetta var stutt hol og aflinn er á milli fimm til sex tonn af hreinum ufsa. Það bárust spurnir af góðri ufsaveiði hér í gær og það hjálpar einnig til að hér er meira af söluvænum þorski en víðast hvar annars staðar,“ sagði Ægis Franzson, 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum í dag.

Þerney er nú að veiðum í Berfjarðarál auk fleiri togara en að sögn Ægis hefur veiðiferðin staðið síðan 19. mars með millilöndun í Reykjavík 4. apríl sl.

,,Við hófum veiðar á Eldeyjarbankanum og Melsekknum, sem er djúpt vestan við Eldey, og þar var fínasta ufsaveiði eins og reyndar hefur verið í nokkrar vikur. Það er alls staðar nóg af þorski og karfa og við fengum einnig dágott af ýsu sem meðafla. Við fórum svo í tvo daga á Halamið í leit að ufsa en höfðum ekki árangur sem erfiði. Þar er hins vegar allt vaðandi í þorski og eins var fínasta karfaveiði,“ segir Ægir en eftir þennan fyrri hluta veiðiferðarinnar var aflinn orðinn tæp 500 tonn af fiski upp úr sjó.

Ágætur afli fékkst á Eldeyjarbankanum eftir að Ægir og hans menn hófu veiðar þar að nýju. Í gær var hins vegar Selvogsbankanum og austasta hluta Skerjadýpis lokað fyrir veiðum vegna hrygningartíma þorsksins og Ægir segir það því hafa verið einboðið að sigla austur eftir að fréttir bárust af ufsaveiðinni. En hvað á hann við með að þorskurinn fyrir austan sé söluvænni en annars staðar?

,,Jafn undarlega og það hljómar þá fæst nú besta verðið fyrir smærri þorskinn. Mesta verðfallið hefur orðið á stærri þorski. Þetta er enginn samt smáfiskur hér fyrir austan en það sem best gengur í markaðinn þessa dagana er þorskur af stærðinni í kringum þrjú kíló,“ segir Ægir Franzson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir