FréttirSkrá á póstlista

10.04.2013

Kolmunninn er dreifður og stendur mjög djúpt

,,Það er því miður frekar rólegt yfir veiðunum enn sem komið er. Kolmunninn er dreifður og er allt niður á um 300 faðma dýpi og bara það að slaka trollinu svo djúpt tekur allt að hálftíma og svo tekur annan eins tíma að hífa. Holin eru því löng og það er mikið haft fyrir aflanum,“ sagði Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, í samtali við heimasíðu HB Granda en rætt var við hann fyrr í dag.

Lundey er nú stödd um 100 sjómílur suðvestur af Færeyjum eða á svipuðum slóðum og Faxi RE og Ingunn AK en alls taldi Arnþór að um tíu íslensk skip væru að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og nokkuð væri um rússneska togara austan við íslensku skipin.

,,Það mega vera 12 íslensk skip að kolmunnaveiðum í einu hér í færeysku lögsögunni og því marki var a.m.k. ekki náð í gærkvöldi því eitt íslenskt skip til viðbótar kom á veiðisvæðið í morgun.“

Að sögn Arnþórs er Lundey NS nú komin með um 1.000 tonna afla og þótt æskilegur afli í veiðiferðinni væri um 1.400 tonn þá liði væntanlega að því að halda þyrfti áleiðis til Vopnafjarðar til löndunar en þangað er um 30 tíma sigling frá veiðisvæðinu. Ferskleiki fisksins ræður þar mestu um. Ástand kolmunnans er annars svipað og verið hefur á þessum árstíma undanfarin ár. Stærðin er sambærilegur en fiskurinn er enn frekar magur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir