FréttirSkrá á póstlista

10.04.2013

HB Grandi fékk Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Útflutningsverðlaun forseta Íslands voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag og komu þau að þessu sinni í hlut HB Granda. Í forsendum dómnefndar fyrir verðlaunaveitingunni segir að þau séu veitt fyrir einstakt framlag fyrirtækisins til vinnslu og sölu íslenskra sjávarafurða og forystu þess í nýsköpun á þessu sviði. Við sama tækifæri afhenti forseti einnig sérstaka heiðursviðurkenningu til Jóhanns Sigurðssonar bókaútgefanda fyrir framlag hans til að auka hróður Íslands á erlendri grundu með heildarútgáfu Íslendingasagna, fyrst á ensku og nú á Norðurlandamálum.

Það var Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sem veitti Útflutningsverðlaununum viðtöku en þeim fylgdi listaverk eftir Sigrúnu Ólöfu Einarsdóttur glerlistarmann. Viðstaddir athöfnina voru m.a. rúmlega 100 starfsmenn HB Granda hf. Þar af um 20 manns frá Vopnafirði og 25 frá Akranesi auk starfsfólks úr fiskiðjuverinu í Norðurgarði í Reykjavík, sjómanna og starfsfólks á skrifstofu og í markaðsdeild. Í ræðu sinni við það tækifæri þakkaði Vilhjálmur Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta fyrir góðar móttökur og hlý orð í garð félagsins og starfsmanna þess. Síðan sagði Vilhjálmur:

,, Ákvörðun eigenda félagsins fyrir tæpum áratug um að færa sölu afurða í hendur starfsfólks félagsins úr höndum útflutningsfélaga með stofnun markaðsdeildar hefur reynst farsæl – það efast enginn um það í dag að hún var rétt.

Þau 840 ársstörf sem lágu að baki útflutningsverðmætum upp á um 30 milljarða í fyrra áttu öll jafnmikinn þátt í hversu vel hefur tekist, þar er ekkert eitt starf öðru mikilvægara. Gæðavitund, vöruvöndun og umhyggja fyrir verðmætum og umhverfi er starfsfólki okkar ofarlega í huga og hefur skilað okkur ánægðum viðskiptavinum.

Það hefur gefið okkur mikið að njóta lofsorða kaupenda afurða okkar, sem hafa sem betur fer hljómað mun oftar í eyrum okkar en umvandanir sem við sinnum þó af fullri alvöru. Gæði, vöruvöndun, vöruþróun og þjónkun við viðskiptavini er verkefni sem aldrei lýkur en þarf ávallt að njóta fullrar athygli.

Frá því að afli næst í veiðarfæri tekur við ferli sem má í engu bregðast til að úr verði góð afurð, oftast góð máltíð. Ekkert má bregðast í keðjunni úr sjó á disk. Við þetta vandaverk hefur starfsfólk okkar til lands og sjávar unnið af alúð.

Við teljum okkur því fyllilega verðuga þessara verðlauna, þökkum forseta vorum afhendinguna og úthlutunarnefndinni tilnefninguna en við erum vissulega sammála henni! Takk fyrir.“

Þess má geta að í dómnefndinni vegna verðlaunanna sátu að þessu sinni Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands og Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir