FréttirSkrá á póstlista

09.04.2013

Framkvæmdum við nýja frystigeymslu miðar vel

Framkvæmdum við byggingu nýrrar frystigeymslu HB Granda á Norðurgarði í Reykjavík miðar vel og að sögn Torfa Þ. Þorsteinssonar, framleiðslustjóra félagsins, eru þær á áætlun og er gert ráð fyrir að taka frystigeymsluna í notkun í lok maí nk.

Það eru ÍAV og Kælismiðjan Frost sem eru verktakar vegna nýbyggingarinnar og samkvæmt upplýsingum frá þeim félögum vinna nú um 40 manns að byggingarframkvæmdunum. Húsið, sem er um 3.800 m2 að heildarflatarmáli, er nú meira en fokhelt. Þessa dagana er m.a. unnið að koma fyrir stálvirki fyrir milligólf, ytri klæðningu á frysti- og flokkunarrými og uppsetningu frystieininga.

Hin nýja frystigeymsla HB Granda á Norðurgarði verður áberandi mannvirki, vestan við innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn, gegnt Hörpu, og því ákváðu stjórnendur félagsins að efna til samkeppni sl. haust meðal listamanna um umhverfislistaverk á eða í tengslum við bygginguna. Alls bárust alls 39 tillögur. Var það einróma niðurstaða dómnefndar að fá listamennina Olgu Bergmann, Ólöfu Nordal, Rósu Gísladóttur og Þór Vigfússon til að fullvinna tillögur sínar. Frestur til að skila fullmótuðum hugmyndum rennur út nk. miðvikudag og er stefnt að því að vinningstillagan verði kynnt eigi síðar en 5. maí nk.

,,Við erum með það í huga að bjóða starfsmönnum og öðrum í kaffi og meðlæti í svokölluðu forrými frystigeymslunnar þann 2. júní nk. Þá höldum við sjómannadaginn hátíðlegan og líkt og venjulega þá er HB Grandi einn að styrkaraðilum Hátíðar hafsins. Okkar hugmynd er að sýna þar þær fjórar tillögur að gerð listaverksins og ef allt gengur að óskum þá getum við opnað frystigeymsluna formlega við sama tækifæri,“ segir Torfi Þ. Þorsteinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir