FréttirSkrá á póstlista

05.04.2013

Kolmunninn lætur á sér standa

Þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda, Ingunn AK, Lundey NS og Faxi RE, eru nú við kolmunnaleit suður af Færeyjum. Ingunn og Lundey hafa verið á svæðinu í tvo sólarhringa en Faxi er nýkominn á miðin. Leitin að kolmunnanum hefur enn engan árangur borið.

,,Auk okkar eru hér nokkur rússnesk skip en mér skilst að þau hafi lítið fengið,“ segir Róbert Axelsson, 1. stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Ingunni. Að sögn Róberts eru þau íslensku skip, sem fóru til kolmunnaveiða eftir páskana, í höfn í Færeyjum eða á leiðinni frá Íslandi.

,,Það er töluvert af skipum á kolmunnaveiðum í ESB lögsögunni vestur af Skotandi langt fyrir sunnan okkur og þar hefur verið veiði. Það er því aðeins spurning um tíma hvenær kolmunninn gengur hingað norður á hið svokallaða gráa svæði sem er á lögsögumörkum Færeyja og Skotlands.“

Þess má geta að kolmunnakvóti skipa HB Granda á þessu ári er um 22.000 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir