FréttirSkrá á póstlista

27.03.2013

Rúmlega 18 þúsund tonn af frystum loðnuafurðum

Loðnuvertíðinni er lokið og skip HB Granda náðu að veiða úthlutaðan kvóta í lok síðustu viku. Afli skipanna nam alls 86.150 tonnum en heildarkvótinn á vertíðinni var 570.000 tonn. Þar af komu rúmlega 463.000 tonn í hlut íslenskra skipa.

Samkvæmt upplýsingum Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarskipa HB Granda, veiddust 5.500 tonn af loðnu á vertíðinni fyrir áramót og var þeim afla öllum landað á Vopnafirði. Þar af voru 2.700 tonn fryst.

Góður stígandi var í loðnuveiðunum í byrjun ársins og aflinn til loka vertíðar nam tæplega 81.000 tonnum. Þar af var rúmlega 54.000 tonnum landað á Vopnafirði. Í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á staðnum voru alls fryst 13.500 tonn af heilli loðnu fyrir ýmsa markaði og rúmlega 600 tonn af loðnuhrognum. Til Akraness bárust þá 26.600 tonn og þar voru fryst tæplega 1.300 tonn af hrognum. Alls nam því framleiðsla á frystum loðnuafurðum á vegum HB Granda um 18.100 tonnum á vertíðinni.

Framan af vertíðinni voru Faxi RE, Ingunn AK og Lundey NS ein um að veiða af kvóta HB Granda en eftir að ákveðið var að bæta við kvótann var Víkingur AK einnig sendur til veiða.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir