FréttirSkrá á póstlista

20.03.2013

Bræla tefur fyrir því að loðnukvótinn náist

Fjögur loðnuskip eru nú við Snæfellsnes og hafa menn beðið þess að hvöss norðanátt gangi niður en ekkert veiðiveður hefur verið í Breiðafirði frá því seint í gær. Eitt skipanna er Lundey NS og að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra, var vindhraðinn um 25 m/s í morgun og sjólag slæmt.

,,Við erum komnir með ágætan afla en vantar enn um 400 tonn til að fylla og ef það tekst þá skilst mér að þetta sé komið hjá skipum HB Granda á vertíðinni,“ segir Arnþór en er rætt var við hann nú síðdegis var Lundey á leiðinni suður fyrir Snæfellsnesið. Þar er eitt skip að veiðum og aðstæður mun skárri en í Breiðafirðinum.

,,Það eru einhverjar peðrur fyrir sunnan nesið sem kastað hefur verið á og þar ætti a.m.k. að vera hægt að fá eitthvað af karlsíli þótt kvensílið vanti. Annars getum við ekki kvartað yfir þeim afla sem við erum komnir með. Þetta er mest loðna sem hentar vel í hrognatöku,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

Mörg loðnuskip fóru af miðunum í Breiðafirði í gær með afla til heimahafna og annarra löndunarstaða og meðal þeirra voru Ingunn AK og Víkingur AK. Ingunn er væntanleg til Vopnafjarðar um miðnætti í kvöld og Víkingur í fyrramálið. Verið er að vinna hrogn úr afla Faxa RE á Akranesi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir