FréttirSkrá á póstlista

18.03.2013

Loðnuveiðarnar að fjara út

,,Það gengur ekki neitt. Við köstuðum einu sinni fyrir hádegið en fengum engan afla. Það er töluvert af skipum hér í Breiðafirðinum en ég hef ekki haft spurnir af því að einhvert þeirra hafi fengið afla í dag. Víkingur AK fékk eitthvað af loðnuhæng út af Vestfjörðum í gær en skipið var þá á leið hingað í Breiðafjörðinn eftir löndun á Vopnafirði.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er rætt var við hann upp úr hádeginu í dag en skipið var þá statt um 16 mílur norður af Öndverðarnesi. Faxi kom á miðin í morgun eftir löndun á Akranesi.

,,Það tók okkur tvo daga í síðasta túr að fá í skipið og sennilega var aflinn um 1.300 tonn. Nú verður bara vart við loðnu sem liggur við botninn en við erum að vona að hún komi upp og gefi sig til þegar það líður á daginn. Annars er vertíðin á síðustu metrunum og menn hafa ekki frétt af því að meira af loðnu sé að koma suður með Vestfjörðum,“ sagði Albert Sveinsson.

Um 5.000 tonn eru nú óveidd af loðnukvóta skipa HB Granda á vertíðinni þannig að ef botninn er ekki alveg dottinn úr veiðunum þá samsvarar það einni veiðiferð fyrir hvert hinna fjögurra skipa félagsins. Þrjú skipanna eru nú við loðnuleit í Breiðafirði en verið er að landa úr Lundey NS á Akranesi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir