FréttirSkrá á póstlista

12.03.2013

Mokveiði úr vestangöngunni í Breiðafirði

,,Það er greinilega mikið magn af loðnu sem er að koma suður með Vestfjörðum og inn í Breiðafjörðinn. Það var mokveiði í gær og einnig í nótt og lóðningarnar eru þær bestu sem ég hef séð á vertíðinni,“ segir Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, sem nú er á leið til löndunar á Vopnafirði með um 1.450 tonna afla. Bjóst hann við því að vera í höfn um kl. 22 í kvöld.

Arnþór segist hafa verið að veiðum norðarlega í mynni Breiðafjarðar og það sé ljóst að loðnan hafi verið á suðurleið.

,,Það er engin spurning um að hér er um vestangöngu að ræða. Mér skilst að hrognafyllingin sé um 26% og þroski hrognanna um 80-90% og það er allt annað en í loðnunni sem flotinn hefur fylgt með suðurströndinni og inn í Faxaflóann síðustu daga og vikur. Þá er stærðin önnur. Við vorum að veiða loðnu, sem taldi 30-35 stykki í kílóinu, en meðaltalið nú er um 44 stykki í hverju kílói,“ segir Arnþór.

Að sögn hans hafa menn lengi haft spurnir af því að töluvert hafi orðið vart við loðnu á Vestfjarðamiðum og nú síðast út af Víkurálnum. Hún er nú að skila sér suður eftir og þessi ganga ætti að geta lengt vertíðina í einhverja daga.

,,Veiðin var alveg dottin niður áður en þessi ganga fannst og því er þetta kærkomin viðbót,“ segir Arnþór en í máli hans kemur fram að sömuleiðis sé ljóst að töluvert sé af loðnu fyrir Norðurlandi en eins og vertíðin hafi þróast þá hafi menn ekki gefið sér tíma til að leita að henni.

Aflinn, sem Arnþór og hans menn fengu í Breiðafirðinum, fékkst í þremur köstum og var það stærsta um 650 tonn. Fá loðnuskip eru nú á miðunum enda eru þau flest á leið til hafnar með fullfermi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir