FréttirSkrá á póstlista

11.03.2013

Veitt úr vestangöngu út af Breiðafirði?

Góð loðnuveiði var í morgun út af miðjum Breiðafirði og þar eru nú sex til sjö skip að veiðum. Það vekur vonir manna að þarna sé um svokallaða vestangöngu að ræða því kvensílið er hrognafullt og ætti því að henta vel til hrognatöku. Áður en vart varð við þessa loðnu út af Breiðafirði var veiðin treg enda virtist loðnan, sem flotinn hefur fylgt vestur í Faxaflóann, vera búin að hrygna.

Nú í morgun voru sjö skip, sem leitað hafa að loðnu út af Garðskaga og suður af Grindavík, á leið á miðin í Breiðafirði. Faxi RE er eitt þeirra og að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra ætti skipið að koma á veiðisvæðið um kl. 15 í dag.

,,Við vorum við Garðskagann og þar varð vart við eitthvað að loðnu í gær en í morgun höfum við ekkert séð. Hið sama á við skipin sem voru suður af Grindavík. Þar var ekkert að hafa í morgun. Fréttirnar úr Breiðafirðinum vekja hins vegar vonir um að við séum að fá vestangöngu og það að hrognafull loðna sé í aflanum styður þá skoðun,“ segir Albert Sveinsson.

Af hinum loðnuveiðiskipum HB Granda er það að frétta að Lundey NS er í Breiðafirði, Ingunn AK í höfn á Akranesi og Víkingur AK var staddur við Langanes á vesturleið eftir að hafa landað afla á Vopnafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir