FréttirSkrá á póstlista

06.03.2013

Halda sjó vestur af Garðskaga

Tvö af skipum HB Granda, Víkingur AK og Ingunn AK, eru nú í höfn á Akranesi. Lundey NS er farin frá Vopnafirði áleiðis á loðnumiðin fyrir sunnan land en áhöfnin á Faxa RE heldur sjó vestur af Garðskaga og bíður þess að óveðrið gangi niður eða að ákveðið verði að kalla skipið inn til löndunar á Akranesi.

,,Við komum á svæðið um kl. 16 í gær og náðum þremur köstum áður en óveðrið skall á. Aflinn er um 800 tonn og nú höldum við bara sjó ásamt fleirum vestur af Garðskaga. Það er ekkert veiðiveður eins og stendur og horfur eru ekki góðar. Það þýðir heldur ekkert að reyna fyrir sunnan Reykjanesið því þar er vindáttin suðaustanstæð og sjólag örugglega verra en hér,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE.

Að sögn Alberts skiptir það ekki máli fyrir skipin, sem kælt geta aflann um borð, hvort þau haldi sjó eða fari strax til hafnar. Faxi er ekki kominn með fullfermi en Albert segir að fari svo að lokið verði við löndun úr Ingunni áður en það viðrar til veiða að nýju þá taki það ekki nema um tvo tíma að sigla til Akraness.

Um loðnugönguna er það að segja að Albert telur að loðnan, sem er fremst í göngunni, sé nú komin nokkuð norðvestur fyrir Reykjanesið. Ljóst sé að töluvert sé af loðnu fyrir sunnan landið en óvissan sé fólgin í því hvort þar sé um að ræða loðnuna sem vart varð við fyrir norðan land á dögunum. Sumir telji jafnvel að sú loðna hrygni þar og gangi ekki hina hefðbundnu slóð austur, suður og vestur með landinu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir