FréttirSkrá á póstlista

05.03.2013

Vel gengur í loðnuhrognafrystingu á Akranesi

Frysting á loðnuhrognum hófst hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi um helgina og að sögn Gunnars Hermannssonar, sem hefur umsjón með vinnslunni, hefur hrognaskurðurinn og –frystingin gengið mjög vel þessa fyrstu daga.

,,Víkingur AK kom hingað með loðnu sl. laugardag og við byrjuðum að skera aðfararnótt sunnudagsins. Hrognaþroskinn er 100% og vinnslan gengur eins og best verður á kosið,“ segir Gunnar en auk afla Víkings hefur loðna frá Ingunni AK og Faxa RE farið í hrognaskurð á Skaganum. Er rætt var við Gunnar um hádegisbilið í dag var Víkingur kominn til hafnar að nýju, þannig að þrátt fyrir óveður frá því í gær þá hefur vinnslan úr nægu hráefni að moða.

,,Aflinn í fyrstu þremur förmunum, sem við höfum unnið úr, fékkst út af Garðskaganum en þar er ekkert veiðiveður í þessu norðanáhlaupi. Víkingur var hins vegar að veiðum suður af Grindavík í síðustu veiðiferð og þrátt fyrir hvassviðrið var sjólaust og því hægt að stunda veiðar,“ segir Gunnar.

Unnið er allan sólarhringinn í loðnuhrognavinnslunni á Akranesi. Mest er unnið á tveimur 12 tíma vöktum og vinna um 50 manns á hvorri vakt. Afkastagetan í frystingunni er um 100 tonn á sólarhring en hægt er að skera og hreinsa mun meira magn. Að sögn Gunnars verða þau hrogn, sem eru umfram frystigetu vinnslunnar, send landleiðina til Vopnafjarðar og fryst þar en hrognafrysting er enn ekki hafin á Vopnafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir