FréttirSkrá á póstlista

28.02.2013

Metloðnufrysting á Vopnafirði

Búið er að frysta rúmlega 12.500 tonn af loðnu hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda nú eftir áramótin og hefur magnið aldrei meira. Metframleiðsla var eftir áramótin í fyrra er 9.500 tonn voru fryst og það er því ljóst að framleiðslumetið verður bætt all rækilega að þessu sinni.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, framleiðslustjóra á Vopnafirði, hefur frystingin gengið vonum framar og hafa lengst af verið full afköst í vinnslunni.

,,Ingunn AK kom hingað í hádeginu með rúmlega 1.000 tonn af loðnu þannig að við höfum nóg hráefni,“ segir Magnús.

Loðnuhrognafrysting fyrir Japansmarkaðinn hefst væntanlega um eða upp úr helginni og reiknaði Magnús með því að hrognataka og -frysting hæfist hjá vinnslu HB Granda á Akranesi en síðan yrði það sama gert á Vopnafirði.

,,Hrognafyllingin í loðnunni er góð eða 21-22% en þroski hrognanna er hins vegar ekki eins mikill og á sama tíma í fyrra,“ sagði Magnús en þess má geta að hrognataka og –frysting hófst 26. febrúar á Akranesi í fyrra. Þá voru fryst rúmlega 4.000 tonn af loðnuhrognum á vegum HB Granda og var það metframleiðsla. Reiknað er með að hrognafrysting verði nokkru minni að þessu sinni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir