FréttirSkrá á póstlista

20.02.2013

Fullreynt í bili á loðnuveiðum fyrir norðan

Tvö skipa HB Granda, Víkingur AK og Lundey NS, hafa verið á loðnuveiðum fyrir norðan land frá því í byrjun vikunnar. Útlitið var ágætt í gærmorgun er Víkingur fékk ágætan afla á Grímseyjarsundi en síðan hefur árangur verið lítill enda þótt víða hafi verið orðið vart við loðnu mjög víða. Loðnan er dreifð og ekki í veiðanlegu magni. Því þykir mönnum fullreynt í bili a.m.k.

Lundey er nú á leið til Vopnafjarðar og að sögn Stefáns Geirs Jónssonar, yfirstýrimanns og afleysingaskipstjóra, ætti skipið að verða í höfn klukkan fimm í fyrramálið.

,,Aflinn er ekki mikill. Sennilega ekki meiri en 300 tonn. Það er búið að leita mjög víða frá Fljótagrunni og austur í Skjálfandaflóa og út á Grímseyjarsvæðinu en þó vart verði við loðnu víðast hvar á þessu svæði þá er hún mjög dreifð og ekki í því formi að hún sé veiðanleg. Mest eru þetta pínulitlar peðrur en góðu fréttirnar eru þær að þessi loðna á eftir að skila sér suður fyrir land og vonandi þéttir hún sig þá,“ segir Stefán Geir Jónsson.

Gunnar Gunnarsson, skipstjóri á Víkingi, sagði í samtali við heimasíðu HB Granda í hádeginu í gær að eftir lélega næturveiði hefði fengist sæmilegasti afli um morguninn.

,,Við tókum fimm köst, þrjú um nóttina en tvö í morgun. Aflinn í fyrstu þremur köstunum var ekki nema um 50 tonn í kasti en síðan glæddist aflinn í síðustu tveimur köstunum og við vorum þokkalega bjartsýnir á framhaldið,“ sagði Gunnar en Víkingur þurfti að halda til hafnar á Vopnafirði síðdegis í gær með um 600 tonna afla eftir smávægilega bilun.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir