FréttirSkrá á póstlista

18.02.2013

Loðnuleit á Grímseyjarsvæðinu

Tvö skip HB Granda eru nú á leið á hafsvæðið í nágrenni Grímseyjar en þaðan hafa borist spurnir af loðnugengd síðustu dagana. Víkingur AK fór frá Akranesi að lokinni löndun í gær og er nú staddur norður af Vestfjörðum og Lundey NS er úti af Þistilfirði en skipið fór frá Vopnafirði í morgun.

Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey, segir að margar vísbendingar hafi borist um að loðnu sé að finna fyrir öllu Norðurlandi en spurningin sé sú hvort loðnan sé í veiðanlegu magni.

,,Smábátasjómenn úr Grímsey segjast hafa siglt yfir stórar loðnutorfur og að þorskurinn sé fullur af loðnu. Svipaðar fréttir berast víðar að, s.s. úr Þistilfirðinum, og það er því ómaksins vert að kanna þetta betur. E.t.v. verður þetta erindisleysa en vísbendingar sem þessar hafa áður skilað árangri,“ segir Arnþór og vísar þar til þess að á sínum tíma hafi hann fengið fréttir á þorrablóti Grímseyinga um mikla loðnugengd fyrir Norðurlandi í lok þorra. Þorrablótið var haldið nú um helgina en Arnþór varðist allra fregna af því hvort hann hefði verið á blótinu eða hvort fréttirnar væru þaðan sprottnar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir