FréttirSkrá á póstlista

18.02.2013

Loðnubræðsla hafin á Skaganum

Fiskmjölsverksmiðja HB Granda á Akranesi er komin í gang eftir að fyrsta loðnan á vertíðinni barst þangað sl. laugardag. Faxi RE kom að landi um morguninn með rúmlega 1.430 tonna afla og síðar um daginn lagðist Víkingur AK að bryggju með tæplega 1.410 tonn.

,,Það tekur auðvitað tíma að gangsetja verksmiðjuna eftir langt hlé en nú er allt komið í fullan gang og vonandi verður þess ekki langt að bíða að meira hráefni berist hingað,“ segir Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri HB Granda á Akranesi en hann upplýsir að alls vinni tíu manns við loðnuvinnsluna á tveimur fimm manna vöktum. Verktakar sjá um löndun á loðnunni líkt og á þeim bolfiski sem landað er hjá HB Granda á Skaganum. Afkastageta verksmiðjunnar á Akranesi er um 850 til 900 tonn af hráefni á sólarhring og aflinn sem barst um helgina ætti því að duga þar til annað kvöld. Ekki liggur fyrir hvenær næst verður landað á Akranesi en tvö skipa HB Granda eru nú að loðnuveiðum við Ingólfshöfða.

Að sögn Guðmundar var vertíðin í fyrra mjög góð en þá bárust alls um 42 þúsund tonn af loðnu til vinnslu hjá verksmiðjunni.

,,Við byrjuðum þá mun fyrr en núna eða 18. janúar og hér var svo til samfelld vinnsla fram í 24. mars. Frysting á loðnuhrognum fyrir Japansmarkaðinn hófst þá um 25. febrúar og væntanlega er hrognafyllingin nú orðin svipuð og þá. Þess er því ekki langt að bíða að hrognataka geti hafist og þá verður nóg að gera hjá okkur í verksmiðjunni,“ segir Guðmundur Hannesson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir