FréttirSkrá á póstlista

14.02.2013

Víkingur AK kominn á loðnuveiðar

Nótaskipið Víkingur AK er nú að loðnuveiðum út af Hornafirði en eftir að ákveðið var að auka við loðnukvótann á vertíðinni þótti sýnt að ekki veitti af því að senda Víking til veiða. Skipið hefur legið bundið við bryggju á Akranesi undanfarið ár eða allt frá því að síðustu loðnuvertíð lauk.

Víkingur fór frá Akranesi síðdegis sl. þriðjudag en veiðar hófust ekki fyrr en snemma í morgun er fyrsta kastið var tekið. Um sólarhringssigling er frá Akranesi á miðin út af Hornafirði.

,,Við erum búnir að taka tvö köst og erum komnir með um 300 tonn af loðnu. Það skapar nokkurn vanda að hér er harður og leiðinlegur botn en vonandi er hægt að finna mýkra botnlag þar sem betra er að athafna sig með nótina,“ sagði Gunnar Gunnarsson, skipstjóri á Víkingi, er tíðindamaður heimasíðunnar náði tali af honum um hádegisbilið.

Að sögn Gunnars er töluvert af skipum á veiðisvæðinu og þar af ein fjögur færeysk. Bræla var í sólarhring á miðunum áður en Víkingur kom austur en nú er veiðiveður gott. Gunnar sagðist reikna með því að afla veiðiferðarinnar verði landað á Akranesi en það verður þá fyrsta loðnan sem berst til verksmiðju HB Granda á Akranesi nú á vertíðinni. HB Grandi er nú með fjögur skip á loðnuveiðum og auk Víkings voru Ingunn AK og Faxi RE á miðunum nú í hádeginu en verið er að landa úr Lundey NS á Vopnafirði.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir