FréttirSkrá á póstlista

07.02.2013

Rafvæðing verksmiðjunnar var tær snilld

Rafvæðing íslenskra fiskmjölsverksmiðja hefur verið töluvert til umræðu að undanförnu en alls er nú mögulegt að framleiða hágæða mjöl og lýsi í fimm verksmiðjum á landinu þar sem innlend orka er notuð í framleiðsluferlinu í stað innfluttrar olíu. Fiskmjölsverksmiðja HB Granda á Vopnafirði reið á vaðið fyrir rúmum tveimur árum síðan og að sögn Sveinbjörns Sigmundssonar verksmiðjustóra hefur rafvæðingin skilað mun betri og meiri árangri en hann óraði fyrir.

,,Það var ráðist í byggingu nýs ketilhúss fyrir rafketil hér á Vopnafirði á árinu 2008 í tengslum við nýju verksmiðjuna sem hér var í byggingu. Rafketillinn var síðan tekinn í notkun á árinu 2009 og til að byrja með var hann keyrður saman með olíuknúnum gufuþurrkurum. Rafvæðingu nýju verksmiðjunnar lauk síðan í árslok 2010 með uppsetningu rafknúinna loftþurrkara sem teknir voru í notkun á loðnuvertíðinni í byrjun árs 2011,“ segir Sveinbjörn.

Samið var um kaup á svokallaðri ,,ótryggri raforku“ frá Orkuveitu Reykjavíkur en það þýðir að Landsnet getur ef þörf krefur dregið tímabundið úr afhendingu á raforku til verksmiðjunnar. Sveinbjörn segir samstarfið við Landsnet hafa gengið mjög vel og verksmiðjan hafi ekki orðið fyrir teljandi skerðingum þrátt þær truflanir sem orðið hafa á raforkuflutningum vegna veðurs og flestum eru í fersku minni. Hægt er að bregðast mjög fljótt við og draga úr raforkunotkun í verksmiðjunni ef bilanir eða truflanir verða í dreifikerfinu. Til þess að auka viðbragðshraðann enn frekar var ákveðið að koma á beinu sambandi stjórnenda í verksmiðjunni og starfsmanna um Tetra kerfi, líkt og Almannavarnir ríksins, lögreglan og björgunarsveitir nota, og verður vöktun á því allan sólarhringinn.

,,Í raun og veru má líkja rafvæðingu verksmiðjunnar hér á Vopnafirði við tæra snilld. Öll stjórnun á framleiðsluferlinu er einfaldari, það er mun ódýrara að nota rafmagn en olíu og síðast en ekki síst erum við að nota innlendan orkugjafa í stað innflutts með tilheyrandi sparnaði á gjaldeyri. Það kemur allri þjóðinni til góða,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir