FréttirSkrá á póstlista

06.02.2013

Góður loðnuafli í tveimur köstum

Áhöfnin á Faxa RE fékk ágætan loðnuafla í djúpnót í tveimur köstum nú í dag. Skipið var þá að veiðum í kantinum um 35 sjómílur austur af Hvalbak og að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra virtist vera þó nokkuð af loðnu á svæðinu auk þess sem eitthvað er gengið upp á grunnið.

,,Við fengum um 500 tonn í fyrra kastinu en loðnan, sem við köstuðum á, var á um 25 faðma dýpi. Við urðum varir við loðnu grynnra en hún var dreifð eða lá við botninn og var því ekki veiðanleg,“ sagði Albert er rætt var við hann nú síðdegið. Búið var að snurpa eftir seinna kastið og verið var að draga og að sögn skipstjórans virtist vera nóg í nótinni.

,,Mér sýnist a.m.k. aflamagnið vera nægilegt til þess að við séum búnir að ná ásættanlegum afla fyrir vinnsluna á Vopnafirði,“ sagði Albert en gangi það eftir ætti skipið að vera komið til hafnar seint í nótt en um átta til níu tíma sigling er frá veiðisvæðinu til Vopnafjarðar.

Af hinum tveimur uppsjávarveiðiskipum HB Granda er það að segja að Ingunn AK er farin frá Reykjavík, þar sem tekin var grunnnót um borð, áleiðis á miðin og Lundey NS ætti að vera farin frá Vopnafirði þar sem afla var landað.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir