FréttirSkrá á póstlista

25.01.2013

175 starfsmenn luku viðbótarnámskeiðum fiskvinnslufólks

Efnt var til útskriftarveislu í húsakynnum HB Granda á Norðurgarði í gær af tilefni þess að 120 starfsmenn félagsins í Reykjavík hafa lokið svokölluðum viðbótarnámskeiðum fiskvinnslufólks. Í næstu viku verður væntanlega sambærileg útskrift á Akranesi en þar hafa 55 starfsmenn lokið öllum fjórum viðbótarnámskeiðunum.

,,Við gerðum okkur glaðan dag af þessu tilefni,“ segir Bergur Einarsson, sem hefur umsjón með námskeiðshaldinu fyrir HB Granda, en að sögn hans fengu allir starfsmennirnir afhent prófskírteini og að lokinni hópmyndatöku var boðið upp á kaffi og meðlæti, s.s. kökur og vöfflur með rjóma.

,,Við fengum góða gesti í heimsókn. Þau Braga Bergsveinsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, sem haft yfirumsjón með námskeiðunum, og Ólöfu Hafsteinsdóttur frá Rannsóknarþjónustunni Sýni, sem var fulltrúi kennara í þessari útskriftarveislu,“ segir Bergur.

Líkt og fram kom í frétt hér á heimasíðunni í liðnum mánuði er umfang grunn- og viðbótarnámskeiða fiskvinnslufólks töluvert hvað varðar HB Granda. Starfsmenn í fiskvinnslunni eru af mörgum þjóðernum og að þessu sinni þurfti að túlka námsefnið yfir á sjö ólík tungumál. Grunnnámskeið fiskvinnslunnar hafa verið haldin á vegum HB Granda í 26 ár en í kjarasamningum 2011 var samið um að koma á fót viðbótarnámskeiðum fyrir starfandi fiskvinnslufólk sem lokið hefði grunnnámskeiðum. Nú er búið að halda slík námskeið á öllum þremur starfsstöðvum félagsins en fyrsta viðbótarnámskeiðið var haldið á Vopnafirði sl. vor.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir