FréttirSkrá á póstlista

23.01.2013

Loðnan að ganga suður fyrir trollhólfið

Faxi RE er nú á leið til Vopnafjarðar með um 1.000 tonna loðnuafla. Aflinn fékkst í flottroll í þremur holum á veiðisvæðinu út af norðanverðum Austfjörðum en þaðan er um 100 sjómílna sigling til Vopnafjarðar. Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra, virðist svo sem að megnið af þessari fremstu loðnugöngu sé komið suður fyrir trollhólfið og því gæti farið svo að skipta yrði yfir á nótaveiðar, þ.e.a.s ef bið verður á að meira af loðnu gangi vestur með norðurströndinni.

Faxi fór frá Vopnafirði sl. mánudagskvöld eftir að skipt hafði verið um tengi á milli gírs og rafals en tengið bilaði í veiðiferðinni á undan. Bilunin olli því að raforkuframleiðslan um borð datt niður og því var ekki um annað að ræða en að fá nýtt tengi sent í snatri með flugi til Vopnafjarðar og gera við bilunina.

Albert segir að nokkur áta hafi verið í fyrsta holinu í veiðiferðinni og því hafi sú ákvörðun verið tekin í gær að láta reka yfir daginn og hefja svo veiðar að nýju undir kvöldið.

,,Það virðist hafa reynst vel því það var mun minni áta í loðnunni í seinni tveimur holunum,“ segir Albert en hann vonast til að meira af loðnu skili sér fljótlega á trollsvæðið á næstunni þannig að hægt verði að nýta flottrollið.

,,Annars heyrist mér á mönnum að nótaveiðin hafi gengið alveg þokkalega. Norsku skipin hafa verið að fá um 100 til 200 tonn í kasti og það er ekkert að því að veiða í nót ef veðrið helst gott.“

Síðustu dagana hefur borið á því að smærri loðna veiðist með stóru loðnunni sem veiddist framan af en hún var reyndar óvenjulega stór og væn á íslenskan mælikvarða. Albert segist vonast til að góð mæling náist í rannsóknaleiðangri Árna Friðrikssonar RE, sem nú stendur yfir, en það muni taka tíma að fara yfir allt svæðið vestur með norðurströndinni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir