FréttirSkrá á póstlista

21.01.2013

Hnúfubakurinn mesta ógnin við loðnustofninn

,,Þetta lítur ekkert of vel út í augnablikinu. Það er minna af loðnu hér fyrir austan en maður vonaðist eftir. Annars hef ég ekki mestar áhyggjur af því, heldur af hvalavöðunum sem hundelta loðnuna. Hnúfubakarnir fylgja loðnugöngunni og eftir að það hlýnaði í sjónum þá segir mér hugur að hvalirnir muni fylgja loðnunni alla leið suður og vestur fyrir landið.“

Þetta segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, en skipið er nú á Vopnafirði með rúmlega 1.000 tonna afla sem fékkst út af Borgarfirði eystri eða í um 90 sjómílna siglingu frá Vopnafirði. Guðlaugur segir ljóst að þótt víða lóði á góðar loðnutorfur á miðunum þá sé magnið ekki í samræmi við væntingar sjómanna. Hann hefur þó fulla trú á að meira af loðnu eigi eftir að skila sér austur með norðurströndinni en þess má geta að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson RE fór frá Reyðarfirði í morgun í nýja loðnuleit en sú fyrri brást að hluta vegna hafíss á svæðinu norður af Vestfjörðum.

Að sögn Guðlaugs er loðnan, sem nú veiðist, óvenju stór og hann segir fiskinn mjög vel haldinn. Sáralítil áta hafi verið í loðnunni síðustu dagana og hún henti því mjög vel til frystingar.

,,Þetta er stærsta loðna sem ég man eftir og stærðin er sambærileg við það sem var við Kanada á meðan Kanadamenn stunduðu loðnuveiðar,“ segir Guðlaugur en hann á von á að löndun úr Ingunni ljúki á morgun. Þá verður haldið til veiða að nýju. Lundey NS fór frá Vopnafirði í morgun en auk Ingunnar er Faxi RE í höfn. Tengi á milli gírs og rafals bilaði í síðustu veiðiferð og hafa skipverjar beðið eftir varahlut sem nú er væntanlega kominn til Vopnafjarðar. Að öllum líkindum kemst Faxi því aftur á veiðar í kvöld.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir