FréttirSkrá á póstlista

18.01.2013

Fjórir listamenn keppa til úrslita um gerð listaverks við gömlu höfnina

Niðurstöður forvalsnefndar, sem hafði það hlutverk með höndum að velja fjóra listamenn til að fullvinna tillögur sínar að listaverki á nýbyggingu HB Granda á Norðurgarði, liggja nú fyrir. Efnt var til samkeppni meðal listamanna um gerð verksins sl. haust og bárust alls 39 tillögur. Var það einróma niðurstaða nefndarinnar að fá listamennina Olgu Bergmann, Ólöfu Nordal, Rósu Gísladóttur og Þór Vigfússon til að fullvinna tillögur sínar.

Það var Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sem tók fyrstu skóflustunguna að nýbyggingunni á uppfyllingunni austan við höfuðstöðvar félagsins í nóvember sl. Hún verður alls 3.800 m2 að stærð og mest rýmið verður nýtt undir nýja frystigeymslu sem taka á í notkun í lok maí nk. Austurgafl nýbyggingarinnar verður 412 m2 að stærð og í útboðsgögnum vegna samkeppninnar segir að hugmyndin sé að listamaðurinn, einn eða í samvinnu við annan, vinni verk á gaflinn eða sjálfstætt verk framan við hann, og/eða verk sem tengir saman veggflötinn og opið útivistarsvæði austan hússins. Listaverkið muni verða ákveðið kennileiti við innsiglinguna að gömlu höfninni og fjölbreytt athafnasvæði hennar að vestanverðu með Hörpu á aðra hönd. Það verði sýnilegt víða að af hafnarsvæðinu.

Samkeppnin fer fram samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og í forvalsnefndinni áttu sæti tveir fulltrúar HB Granda og einn sem tilnefndur var af SÍM. Samkvæmt keppnisreglum verða listamönnunum greiddar 250.000 krónur fyrir fullunna tillögu. Skila þarf tillögum fyrir 10. apríl nk. og stefnt er að því úrslit verði tilkynnt eigi síðar en þann 5. maí nk. Það kemur í hlut dómnefndar, sem í eiga sæti þrír fulltrúar HB Granda, tveir tilnefndir af SÍM auk fulltrúa Faxaflóahafna, að velja það listaverk sem prýða mun hafnarsvæðið í framtíðinni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir