FréttirSkrá á póstlista

12.01.2013

Stærsta loðna sem við höfum fryst

Um 4800 tonnum af loðnu hefur verið landað á Vopnafirði fyrstu daga ársins. Vinnsla til manneldis gekk mjög vel til að byrja með enda var loðnan nánast átulaus og sömuleiðis með stærsta móti. Skjótt skipast hins vegar veður í lofti og í síðustu förmunum hefur verið mikið af átu í loðnunni og fyrir vikið hefur hún ekki hentað til frystingar.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, náðist að frysta megnið af loðnunni í fyrstu þremur löndunum ársins en hætta varð vinnslu til manneldis nú upp úr miðri vikunni vegna þess hve mikil áta var í loðnunni.

,,Vinnslan gekk mjög vel og það kom okkur á óvart hve loðnan var stór. Við vorum að frysta töluvert af loðnu í stærðarflokknum 20 til 30 stykki í kílóinu og það er í fyrsta skipti sem það gerist á Vopnafirði,“ segir Magnús.

Stjórnendum HB Granda, líkt og útgerðum fleiri loðnuveiðiskipa, er nú töluverður vandi á höndum. Loðnuleiðangur Hafrannsóknastofnunar stendur yfir um þessar mundir og vonast menn vissulega til þess að niðurstöður leiðangursins gefi tilefni til að aukið verði við loðnukvótann. Ákvörðun í þeim efnum verður tekin í fyrsta lagi í lok mánaðarins. Verði aukið við kvótann veitir ekki af því að stunda veiðarnar af krafti. Fari hins vegar svo að engin aukning fáist þá gætu útgerðirnar dregið úr veiðiþunganum á meðan loðnan er í æti en bætt svo í þegar loðnan er orðin átulaus og hentar betur í frystingu. Óvissan er því mikil og verður það þar til að niðurstöður rannsóknaleiðangursins liggja fyrir.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir