FréttirSkrá á póstlista

08.01.2013

Stór og góð loðna en stendur djúpt

Faxi RE og Ingunn AK komu til Vopnafjarðar snemma í morgun með rúmlega 2.000 tonn af loðnu og fékkst sá afli aðallega í flottroll á togveiðisvæðinu norður af Langanesi.

Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa RE, er þetta stór og falleg loðna og svo til átulaus en vandinn er sá að utan togveiðisvæðisins stendur loðnan það djúpt að mjög erfitt er að ná henni í nót.

,,Það lóðaði mjög víða á góðar torfur en vestan við togveiðisvæðið hefur loðnan staðið mjög djúpt. Hún er mikið á um 50 faðma dýpi og alveg niður á 80 til 90 faðma, jafnvel þótt það sé svartamyrkur,“ segir Albert. Hann segir að gott ástand virðist vera á loðnunni. Hún sé stór og í síðustu mælingu skipverja á Faxa hafi talning skilað að jafnaði 33 stykkjum í kílóinu.

Töluverður fjöldi skipa er nú á veiðisvæðinu og Albert segir að flest hafi skipin sennilega verið 17 talsins og því nokkur þröng á þingi. Grænlenska skipið Erika kom á miðin í nótt en það skip er útbúið til nótaveiða. Áhöfnin reyndi fyrir sér með nótina í nótt en Albert var ekki kunnugt um árangurinn þegar rætt var við hann.

Búið er að vinna afla Lundeyjar NS, sem kom með til fyrsta loðnuafla ársins til Vopnafjarðar, og er skipið komið á miðin að nýju. Verið er að landa úr Ingunni og vinna þann afla og röðin kemur svo að Faxa þegar löndun úr Ingunni lýkur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir