FréttirSkrá á póstlista

21.12.2012

Viðbótarnámskeið fiskvinnslufólks á átta tungumálum

Um 200 starfsmenn HB Granda í Reykjavík og á Akranesi taka þessa dagana þátt í svokölluðum viðbótarnámskeiðum fiskvinnslufólks en kennt er í þessari viku og þeirri næstu. Kennt er á íslensku en þar sem margir starfsmannanna eru af erlendu bergi brotnir er kennsluefnið túlkað yfir á sjö önnur tungumál.

Að sögn Bergs Einarssonar, sem hefur umsjón með námskeiðshaldinu fyrir HB Granda, hefur félagið haldið grunnnámskeið fiskvinnslunar árlega í 26 ár en þetta var í fyrsta skiptið sem haldin eru viðbótarnámskeið í Reykjavík og á Akranesi. Í vor sem leið voru haldin grunn- og viðbótarnámskeið fiskvinnslunar fyrir starfsmenn HB Granda á Vopnafirði en í kjarasamningum 2011 var samið um að koma á fót viðbótarnámskeiðum fyrir starfandi fiskvinnslufólk sem lokið hefði grunnnámskeiðum.

Bergur segir að samið hafi verið við Sýni rannsóknaþjónustu um kennslu í tíu klukkustundir á hverju námskeiði og á þeim er farið yfir gæði og öryggi í meðferð matvæla, gæði og meðferð afla frá veiðum til vinnslu og umhverfismál. Þessu til viðbótar er haldið fjögurra klukkustunda námskeið í sjálfstyrkingu. Í Reykjavík eru um 140 manns skráðir á námskeiðin og á Akranesi er fjöldinn um 60 manns.

,,Til að námsefnið komist sem best til skila til starfsfólks er reynt að hafa ekki fleiri en 25 manns á hverju námskeiði. Þar sem starfsfólkið er af mörgum þjóðernum er tekið tillit til þess og fólk sem á sameiginlegt móðurmál er stundum í mun smærri hópum. Við fáum túlka til að þýða námsefnið og að þessu sinni er túlkað yfir á ensku, pólsku, litháísku, kínversku, tælensku, víetnömsku og portúgölsku,“ segir Bergur en vegna þess fjölda sem sækir námskeiðin eru þau haldin á þremur stöðum samtímis. Kennt er í Norðurgarði í Reykjavík, á Akranesi og í þremur sölum í Sjóminjasafninu Víkinni á Grandagarði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir