FréttirSkrá á póstlista

18.12.2012

Mikil aukning á Vopnafirði milli ára

Nýtt met var sett í vinnslu og frystingu á uppsjávarafurðum á Vopnafirði á þessu ári en heildarframleiðslumagnið nemur ríflega 32.000 tonnum. Það er rúmlega 14% aukning frá fyrra ári en þá voru fryst um 28.000 tonn. Mikil aukning varð einnig í löndunum á uppsjávarafla á milli ára. Landaður afli á þessu ári nam 112.500 tonnum en í fyrra var heildaraflamagnið 75.700 tonn.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra bárust rúmlega 3.000 tonn af loðnu til Vopnafjarðar í síðustu viku og þar af voru fryst um 1.550 tonn. Lokið var við að vinna og frysta síðustu afurðirnar síðdegis í gær. Vegna veðurútlits var ákveðið að gera hlé á veiðum fram yfir áramót og nú er verið að ljúka við þrif og annan frágang í frystihúsinu.

Mest var fryst af loðnu á þessu ári, rúmlega 11.800 tonn, en síldar- og makrílafurðir voru svipaðar að magni eða um 9.200 tonn af hvorri tegund. Frysting á loðnuhrognum nam um 1.900 tonnum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir