FréttirSkrá á póstlista

14.12.2012

Velheppnaðar hangikjötsveislur á aðventunni

Vel á fjórða hundað starfsmanna HB Granda í Reykjavík og á Akranesi gæddu sér á hangikjöti og öðrum kræsingum þegar boðið var til árlegra jólamáltíða í mötuneytum félagsins á báðum starfsstöðvum í gær. Í Reykjavík mættu rúmlega 200 manns til veislunnar og á Akranesi tóku rúmlega 130 manns þátt í borðhaldinu.

Í mötneytinu í Norðurgarði í Reykjavík hófst borðhaldið kl. 12 en þar sá starfslið eldhússins um matseldina. Boðið var upp á hangikjöt með uppstúf og kartöflum og hátíðarskinku með brúnuðum kartöflum og jólasósu kokksins. Einnig var val um þrenns konar síldarrétti, þ.e.a.s. marineraða síld, karrýsíld og sinnepssíld, og hrátt, tvíreykt hangikjöt. Rúgbrauð og laufabrauð og annað hefðbundið meðlæti var einnig á boðstólum. Í eftirrétt voru Duo súkkulaði mousse og Ris a la Mande með kirsuberjasósu og loks má nefna að með kaffinu var borið fram konfekt og piparkökur.

Á Akranesi hófst veislan í mötuneyti fiskiðjuversins, venju samkvæmt, kl. 16. Þar sáu heimamenn frá veitingahúsinu Galíto um hangikjötveisluna og á meðan borðhaldi stóð fluttu stúlkur frá Tónlistarskóla Akraness nokkur vel valin jólalög.

Loks má nefna að hin árlega hangikjötsveisla fyrir starfsmenn HB Granda á Vopnafirði verður haldin nk. fimmtudag.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir