FréttirSkrá á póstlista

12.12.2012

Sæmilegt kropp innan um hvalavöðurnar

,,Við vorum að leggja af stað frá miðunum áleiðis til Vopnafjarðar með um 1.100 tonna afla. Ingunn AK fór á undan okkur en Lundey NS er enn á miðunum,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er við náðum tali af honum í morgun. Faxi var þá staddur um 60 sjómílur NNA af Hornbjargi og framundan var 225 sjómílna sigling til Vopnafjarðar.

Það er sjaldgæft að öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda séu samtímis að veiðum en að þessu sinni helgast það af því að verulegt hlé hefur orðið á veiðum vegna óveðurs upp á síðkastið.

,,Við vorum nýkomnir á miðin þegar við þurftum að leita vars á Ísafirði og síðan komumst við út að nýju í sólarhring áður en við þurftum að halda aftur til Ísafjarðar. Skipin söfnuðust þar saman en auk HB Granda skipanna voru Jón Kjartansson og grænlenska skipið Erika á sömu slóðum og við. Þegar veðrið gekk niður þá gátum við farið út og leitað saman og fundum loðnu austan við það svæði sem við höfðum áður verið á,“ segir Albert en í máli hans kemur fram að loðnan veiðist líkt og fyrr aðeins eftir að það rökkvar á daginn, yfir kvöldið og nóttina þar til það birtir að nýju.

,,Það hefur ekki verið mikill kraftur í veiðunum en sæmilegt kropp. Við höfum verið að fá í kringum 100 tonn í kasti og það hefur verið töluvert fyrir þessu haft. Það er með ólíkindum hve mikið er af hvölum á veiðisvæðinu, heilu hjarðirnar af hnúfubökum, og sumir hafa verið svo óheppnir að fá hvalina inn í næturnar. Það er erfitt að forðast það í myrkrinu en við sluppum sem betur fer við það að þessu sinni,“ segir Albert.

Loðnan, sem veiðst hefur síðustu sólarhringa, er af ágætri stærð og síðasta mæling, sem Albert vissi til að gerð hefði verið um borð í Faxa var upp á um 41 stykki í kílóinu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir