FréttirSkrá á póstlista

27.11.2012

Loðnan stendur djúpt og er dreifð

Rólegt hefur verið yfir loðnuveiðum frá því að skip HB Granda fór til veiða norður af Vestfjörðum sl. laugardag. Aðeins er heimilt að veiða loðnu í nót innan íslenskrar lögsögu á þessum slóðum og hefur það torveldað veiðarnar að loðnan stendur djúpt og er dreifð í gisnum torfum. Ingunn AK var nú í morgun komin með um 430 tonna afla og Lundey NS var að koma á miðin eftir að hafa farið með nótina til viðgerðar á Ísafirði.

Veiðiferð Ingunnar og Lundeyjar hófst reyndar 18. nóvember sl. en vegna óveðurs á miðunum leituðu skipin vars á Ísafirði þar sem þau lágu í höfn þar til sl. laugardag. Á sunnudeginum fékk svo Ingunn um 250 tonna afla og Lundey um 100 tonn áður en nótin rifnaði.

Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni, sagði í samtali við heimasíðuna nú í morgun að skipin væru stödd norður af Halanum eða um 60 mílur NNV af Straumnesi.

,,Það er lítill kraftur í þessu og það er helst að hægt sé að kroppa eitthvað upp eftir að það dimmir og þar til að það birtir af morgni. Loðnan, sem við fengum í nótt, var heldur smærri en sú sem við fengum í fyrrinótt. Þá var stærðin um 37-40 stykki í kílóinu sem þykir mjög gott,“ sagði Guðlaugur en hann reiknaði með því að veiðum yrði haldið áfram fram á kvöld ef veður leyfði en spáð væri kaldaskít þegar liði á daginn. Í kvöld verður stefnan svo sett á Vopnafjörð þar sem allt er klárt til að taka á móti fyrsta loðnuaflanum á vertíðinni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir