FréttirSkrá á póstlista

15.11.2012

Fádæma ótíð á öllum miðum

,,Það, sem helst einkenndi veiðiferðina, var fádæma ótíð og frátafir frá veiðum vegna veðurs. Það hafa verið skítabrælur með litlum hléum í heilan mánuð. Þótt það sé ekkert óvenjulegt að það bræli og það hressilega á þessum árstíma, þá er munurinn sá að nú gátum við ekki fært okkur milli svæða til þess að komast í betra veður. Það var óveður alls staðar.“

Þetta segir Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri á frystitogaranum Helgu Maríu AK, en skipið kom til hafnar í Reykjavík í morgun eftir 24 daga úthald. Afli upp úr sjó var um 420 tonn í veiðiferðinni og áætlað aflaverðmæti um 137 milljónir króna. Úthaldið eitt segir þó ekkert til um eiginlegan veiðitíma því vegna óveðursins þurfti Helga María að liggja í vari í eina sjö sólarhringa í veiðiferðinni.

Að sögn Eiríks var fyrst farið á Vestfjarðarmið en þar var karfa- og ufsaafli þá að tregast eftir ágæta veiði vikurnar á undan. Því var stoppað stutt við og farið suður undir Breiðafjörð og reynt við djúpkarfa og gulllax allt suður í Skerjadjúp. Afli var frekar tregur og eftir um vikutíma á þeim veiðum var aftur haldið á Vestfjarðamið þar sem veiðiferðin var kláruð.

,,Við fórum ekkert austur þótt þar væri mjög góð veiði og ástæðan er sú að þar er alltof mikið af þorski miðað við þann þorskkvóta sem okkur er skammtaður í hverri veiðiferð. Á Vestfjarðamiðum er s.s. ekkert vandamál að veiða þorsk þótt að veiðin tregist oft á þessum árstíma. Þorskurinn á djúpslóðinni á Vestfjarðamiðum er mjög vænn og góður og þar sést ekki smáfiskur. Hið sama á reyndar einnig við um ufsann og karfann. Ýsuveiði er hins vegar lítil en við fengum þó stóra og fína ýsu með þorsknum sem veiddist á Deildargrunninu og í Þverálnum,“ segir Eiríkur Ragnarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir