FréttirSkrá á póstlista

13.11.2012

Forvarnir skila sér í fækkun vinnuslysa á sjó

Frá því í ársbyrjun hefur staðið yfir sérstakt verkefni sem felst í forvarnasamsvinnu HB Granda, Slysavarnaskóla sjómanna og tryggingafélagsins Sjóvár. Markmiðið er að koma í veg fyrir slys á sjómönnum við vinnu um borð í skipum félagsins. Þessi vinna hófst um borð í ísfisktogaranum Ottó N. Þorlákssyni RE og er reynslan góð fram að þessu. Dregið hefur úr vinnuslysum og skipverjar eru meðvitaðri en áður að markvissar slysavarnir skila árangri.

Slysavarnir um borð í skipum eru ekki einkamál áhafnarinnar heldur er það allra hagur að lágmarka möguleikann á slysum og því leggja Sjóvá og Slysavarnaskóli sjómanna ríka áherslu á að skuldbinding útgerðar og áhafnar sé til staðar.

Að sögn Rúnars Þórs Stefánssonar, útgerðarstjóra HB Granda, leggja stjórnendur félagsins mikla áherslu á öryggi starfsmanna og hann segir ljóst að þessu verkefni verði fylgt vel eftir. Sýnilegur árangur hafi nú þegar orðið um borð í Ottó N Þorlákssyni og nú í byrjun nóvember hafi sambærileg vinna hafist um borð í ísfisktogaranum Ásbirni RE. Önnur skip HB Granda muni síðan bætast í hópinn.Tengiliður þessa verkefnis í landi er Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara.

Í stuttu máli má segja að framkvæmd forvarnavinnunnar sé með þeim hætti að fundað er með með áhöfnum skipanna og á þeim fundum fara þeir Hilmar Snorrason, skólastjóri og Ingimundur Valgeirsson, verkefnastjóri Slysavarnaskóla sjómanna yfir hvernig á að framkvæma áhættugreiningu um borð, skrá slys, tjón eða atvik sem leiddu næstum því til slysa á sérstakt atvikaskráningareyðublað. Öllu máli skiptir að áhöfnin sé virk, taki málin í sínar hendur og vinni úr áhættugreiningunni og yfirfari atvikaskráninguna reglulega í leit að leiðum til að koma í veg fyrir slys. Oftar en ekki er um að ræða minni háttar viðgerðir eða breytingar, sem hægt er að gera strax, eða breytingar á verklagi.

Samvinna áhafnar og útgerðar
„Það er gríðarlega mikilvægt að fyrirtæki eins og HB Grandi skuli leggja svo ríka áherslu á forvarnir. Forvarnir eru hugarfar og það mótar hvernig við nálgumst verkefni hvort sem það er frágangur á vinnustað eða að aka bíl. Vinnuaðstaða sjómanna hefur gjörbreyst til hins betra síðustu ár og slysum fækkað í samræmi við það. Það að skrá ,,næstum því“ slys er því mikilvægt skref til að koma í veg fyrir atburði sem hefðu getað orðið að slysi og lýsir því hugarfari sem stjórnendur HB Granda hafa til öryggismála,“ segir Fjóla Guðjónsdóttir forstöðumaður, forvarna hjá Sjóvá.


Nýjustu fréttir

Allar fréttir