FréttirSkrá á póstlista

07.11.2012

Skínandi gott kast þrátt fyrir rifna nót

,,Við erum að dæla úr nótinni. Hún rifnaði reyndar en þrátt fyrir það fengum við skínandi gott kast. Svo verður farið í það að reyna að gera við nótina og vonandi getum við haldið veiðum áfram,“ sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er rætt var við hann nú síðdegis en Faxi var þá staddur inni á Grundarfirði.

Að sögn Alberts kom skipið á miðin í morgun og þá lóðaði strax á góðar síldartorfur.

,,Það var mikið að sjá til að byrja með en síldin dreifði sér fljótlega og nú eru þetta bara smá peðrur hér og þar í firðinum. Við köstuðum tvisvar í morgun og fengum um 130 tonn í fyrra kastinu en í því síðara var aflinn enginn þótt kastað væri á góða lóðningu. Það er erfitt að segja til aflamagnið í þessu þriðja kasti en það dugar þó ekki til að við náum skammtinum sem er um 800 til 900 tonn,“ segir Albert Sveinsson.
Von er á Lundey NS til Vopnafjarðar í nótt með rúmlega 900 tonna afla og í samtali við heimasíðuna segir Stefán Geir Jónsson, fyrsti stýrimaður, að aflinn hafi fengist í Kolgrafarfirði, innan við Grundarfjörð, sem og í Grundarfirði.

Vegna óhagstæðrar veðurspár og óveðurs í lok síðustu viku lágu síldveiðar niðri í um vikutíma. Lítið er eftir af kvóta skipa HB Granda á íslenskri sumargotssíld og ætti veiðum þeirra að ljúka í byrjun næstu viku.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir