FréttirSkrá á póstlista

30.10.2012

Veðurhorfur koma í veg fyrir síldveiðar

Lundey SN er á leið til Reykjavíkur eftir að hafa staldrað stutt við í Breiðafirði. Að sögn Stefáns Jónssonar, stýrimanns, sást ekkert til síldar og mjög slæm veðurspá næstu dagana varð þess valdandi að ákveðið var að gera hlé á veiðum og bíða veðrið af sér. Var veiðieftirlitsmaðurinn settur í land í Grundarfirði og stefnan svo tekin til Reykjavíkur.

Spáð er mjög slæmu veðri þegar líður á daginn og síðan norðan stormi fram að helgi. Stefán Geir segir því að fyrst ekki varð vart við síld í veiðanlegu magn í Breiðafirði eða á Grundarfirði í morgun þá hafi eina vitið verið að leita hafnar.

Ágæt síldveiði var í Breiðafirði í síðustu viku og voru skip HB Granda með frá rúmlega 800 tonna afla og upp í rúmlega 1.000 tonn í einstökum veiðiferðum í vikunni. Af skipunum er það annars að frétta að Faxi RE kom með um 900 tonna afla til Vopnafjarðar í gærkvöldi. Þá kom Ingunn AK til Akranes en skipið á að fara í slipp nú í vikunni. Lundey er sem fyrr segir á suðurleið. Faxi og Lundey munu ljúka við að veiða síldarkvóta félagsins áður en loðnuveiðar hefjast. Miðað við tillögur Hafrannsóknastofnunar ætti um 40.000 tonna byrjunarkvóti að koma í hlut HB Granda að þessu sinni en menn binda vonir við að mælingar í janúar nk. skili hærri niðurstöðu og auknum loðnukvóta. Það hefur undantekningarlítið gerst hin síðari ár.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir