FréttirSkrá á póstlista

23.10.2012

Gott ástand á gullkarfastofninum

Von er á ísfisktogaranum Ásbirni RE til hafnar í Reykjavík í fyrramálið með um 115 til 120 tonna afla. Aflinn er að uppistöðu gullkarfi en einnig þorskur og ufsi sem fengust á Vestfjarðamiðum í lok veiðiferðarinnar.

,,Við byrjuðum á karfaveiðum á Fjöllunum og fengum þar góðan afla. Ástandið á gullkarfastofninum er gott og þetta eru okkar hefðbundnu heimamið,“ segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Ásbirni en að hans sögn var ákveðið að ljúka veiðiferðinni á Halamiðum og freista þess að ná þar þeim þorskskammti sem skipinu er skammtaður í hverri veiðiferð.

,,Við vorum komnir á Halamið á laugardeginum og þar hafði verið mjög góð þorskveiði vikurnar á undan. Hins vegar var farið að draga úr veiðinni en hún var samt þokkaleg og við getum ekki kvartað. Ufsaveiði hefur sömuleiðis verið góð á Halanum en nú brá svo við að fiskurinn var óvenju smár. Það er ekki hægt að ganga að neinu vísu hvað þetta varðar,“ segir Friðleifur en þess má geta að á sama tíma og þorskveiði hefur tregast á Vestfjarðamiðum berast fréttir af því að mokveiði sé fyrir austan, allt frá Digranesflaki og suður fyrir svokallaðan Fót.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir