FréttirSkrá á póstlista

22.10.2012

Bóndinn í Bjarnarhöfn vildi trúlega hlutdeild í aflanum

,,Það var ákaflega rólegt yfir veiðinni. Við rúntuðum um Breiðafjörðinn í þrjá daga að þessu sinni. Fyrsta daginn var ekkert að sjá, síðan náðum við einu kasti og 75 tonnum af síld inni á Grundarfirði í fyrradag en það rættist úr þessu í gær og þá fengum við rúmlega 480 tonn við Hrútey.“

Þetta sagði Albert Sveinsson, skipstjóri á Faxa RE, er við ræddum við hann um gang síldveiðanna nú síðdegis. Faxi RE var þá á leið til Vopnafjarðar og var skipið statt um fjórar mílur norður af Grímsey og áætlaður komutími til Vopnafjarðar er um klukkan tvö í nótt.

,,Við fundum litla torfu við Hrútey, köstuðum þrisvar og náðum þokkalegum afla. Það er aðdjúpt við eyna og síldin var þétt uppi við hana. Við fórum svo nærri eynni að Hildibrandur bóndi og hákarlaverkandi í Bjarnarhöfn hringdi í okkur og spurði hvort við ætluðum með trollið upp á eyna. Honum fannst líklega við værum komnir inn í hans landhelgi og gott ef hann vildi ekki fá aflahlut,“ segir Albert en síldin við Hrútey var að jafnaði um 300 grömm að þyngd eða mun vænni en síldin á Grundarfirði en þar var meðaltalið um 245 grömm.

Að sögn Alberts virðist vera mun minna af síld í Breiðafirði nú en mörg undanfarin ár en hann segir þó of snemmt að kveða upp úr um það hvernig vertíðin verði.

,,Við byrjuðum ekki veiðar á íslenskri sumargotssíld fyrr en í nóvember í fyrra og erum því a.m.k. hálfum mánuði fyrr á ferðinni nú. Vonandi rætist úr þessu og fréttir frá í morgun benda til þess að veiðin sé að glæðast og nokkur skip fengu strax góðan afla. Ingunn AK fékk t.d. mjög góðan afla og skipið er farið af miðunum áleiðis til Vopnafjarðar. Lundey NS ætti að koma á miðin í kvöld og vonandi verður framhald á veiðinni á morgun og næstu daga,“ segir Albert Sveinsson.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, er góður markaður fyrir frystar síldarafurðir um þessar mundir og þótt síldin sé að jafnaði nokkuð smærri en menn hafa átt að venjast undanfarin ár, hentar hún vel til vinnslu.


Nýjustu fréttir

Allar fréttir