FréttirSkrá á póstlista

16.10.2012

Lítið sést til síldar í Breiðafirði

Ingunn AK er nú á leið til Vopnafjarðar með tæplega 800 tonn af síld en sá afli fékkst í sjö köstum í Breiðafirði og Grundarfirði í gær. Um 30 tíma sigling er af miðunum til Vopnafjarðar og að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni, er áætlað að skipið komi til hafnar um kl. 20 í kvöld.

,,Við hófum veiðarnar í sundinu við Kiðey og köstuðum þar á litla torfu. Síðan fórum við inn á Grundarfjörð og náðum þar að kroppa upp afla úr litlum torfum sem voru mjög dreifðar,“ segir Guðlaugur en í máli hans kemur fram að svo virðist sem að sáralítið magn sé nú af síld á Breiðafjarðarsvæðinu, a.m.k. í samanburði við fyrri ár. Hafa ber þó í huga að skipin eru fyrr á ferðinni í ár en á vertíðinni í fyrra og næstu dagar og vikur muni skera úr um það hvernig veiðar á íslensku sumargotssíldinni munu þróast að þessu sinni. Reyndar er horft til fleiri veiðisvæða, s.s. úti fyrir SA-ströndinni, en ekki hafa spurnir borist af því hvort leitað hafi verið að síld á því svæði að þessu sinni.

Þess má geta að Lundey NS kom á miðin í Breiðafirði í morgun og að sögn Guðlaugs var ekkert að frétta af aflabrögðum í hádeginu, frekar en hjá öðrum skipum sem leitað hafa eftir síld í veiðanlegu magni í dag. Sú síld, sem hefur veiðst, hefur aðeins gefið sig til á meðan birtu nýtur eða frá kl. átta til níu á morgnana og fram eftir degi. Guðlaugur segir að síldin í afla Ingunnar sé frekar smá og benda prufur til þess að meðalvigtin sé um 260-270 grömm.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir