FréttirSkrá á póstlista

15.10.2012

Beðið eftir legu í útskipunarkranann á Vopnafirði

,,Ef allt gengur að óskum ætti útskipunarbúnaðurinn að vera kominn í lag um mánaðamótin nóvember og desember og ef loðnuvertíðin verður ekki hafin af krafti þá ætti þetta óhapp ekki að koma að sök. Við erum enn með nóg rými í mjöltönkunum og ef í harðbakkann slær þá getum við skipað mjölinu út með gamla laginu. Það væri þó neyðarúrræði.“

Þetta segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði, en töluvert tjón varð á útskipunarbúnaði félagsins við Vopnafjarðarhöfn í lok september sl. er flutningaskipið Green Crystal rakst m.a. utan í krana sem notaður er við útskipun. Búnaðurinn var hannaður og smíðaður af Héðni hf. og var fyrirtækið fengið til að sjá um lagfæringar og endursmíði á honum. Áður en hann var tekinn í gagnið þurfti að sekkja allt mjöl og flytja það með vörubílum að skipshlið.

,,Það er búið að taka þann búnað, sem skemmdist, niður og senda hann suður. Vandinn er sá að það getur tekið upp í átta vikur að fá legu í kranann en hún var pöntuð strax frá Danmörku. Ég veit að Héðinsmenn hafa reynt að fá afhendingu flýtt en í versta falli ætti hún að skila sér til landsins í lok næsta mánaðar. Það að koma legunni fyrir tekur ekki langan tíma og því erum við vongóðir um að allt verði komið í samt horf í lok nóvember eða byrjun desember,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir