FréttirSkrá á póstlista

09.10.2012

Verðmæti uppsjávarafla gæti minnkað um 600 milljónir króna

,,Ef farið verður að tillögum fiskifræðinga varðandi veiðar á norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna á næsta ári, gæti útflutningsverðmæti afla uppsjávarveiðiskipa HB Granda dregist saman um 600 milljónir króna, miðað við að makrílaflinn skiptist svipað milli þjóða, sem rétt hafa til makrílveiða, og hann gerði á þessu ári. Það er reyndar mikil óvissa ríkjandi hvað varðar makrílinn. Samkomulag hefur ekki tekist um skiptingu kvótans og sömuleiðis draga margir í efa að stofnstærðarmatið sé rétt.“

Þetta segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í samtali við heimasíðu félagsins. Nýlega lagði ráðgjafanefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) til verulega skerðingu á heildaraflamarki norsk-íslenskrar vorgotssíldar og makríls á næsta ári. Samkvæmt aflareglum, sem unnið hefur verið eftir síðustu ár, nemur skerðing aflamarks í síld rúmlega 200 þúsund tonnum og makrílkvótinn skerðist um tæplega 100 þúsund tonn ef veiðin skiptist á svipaðan hátt á milli þjóða og hún gerði á þessu ári. Útlitið er allt annað og betra hvað varðar veiðar á kolmunna en samkvæmt aflareglu er lagt til að heildaraflamarkið verði aukið um 250 þúsund tonn á næsta ári.

Að sögn Vilhjálms lítur því út fyrir að aflamark HB Granda í norsk-íslenskri síld muni dragast saman um 4.300 tonn á næsta ári og fara úr 16.900 tonnum í um 12.600 tonn. Aflamark í kolmunna mun hins vegar aukast um 10.400 tonn og fara úr 13.100 tonnum í um 23.500 tonn á næsta ári.

,,Taki aflamark í makríl breytingum í samræmi við ráðleggingar mun aflamark uppsjávarveiðiskipa HB minnka úr 14.500 tonnum í 12.400 tonn á næsta ári. Þ.e.a.s. að því gefnu að stofnstærðarmatið verði ekki endurskoðað og að skipting veiðinnar milli þjóða verði óbreytt milli ára. Gangi tillögur ICES eftir mun aflamarkið í þessum þremur tegundum því aukast, að öllu óbreyttu, hjá okkur um 4.000 tonn en miðað við núverandi verðforsendur gæti aflaverðmætið minnkað um allt að 600 milljónir króna,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Samkvæmt ráðgjöf ICES, sem greint er frá á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar, er lagt til að heildaraflamark á norsk-íslenskri vorgotssíld verði 619.000 tonn á næsta ári. Hlutdeild Íslendinga í aflanum verður um 90.000 tonn (14,51%). Til samanburðar var aflamarkið 833.000 tonn í ár og hlutdeild Íslands 120.000 tonn. Lagt er til að aflamark í kolmunna fyrir 2013 verði 643.000 tonn. Þar af er hlutdeild Íslendinga um 113.000 tonn (17,6%). Til samanburðar þá var aflamark fyrir árið 2012 um 391.000 tonn og hlutdeild Íslendinga 69.000 tonn. Hvað varðar aflamark í makríl fyrir næsta ár verður það 497.000 til 542.000 tonn miðað við aflareglu. Til samanburðar var aflamarkið í ár 586.000 til 639.000 tonn og áætlaður heildarafli um 930.000 tonn. Þar af er afli Íslendinga áætlaður um 150.000 tonn.

Sem fyrr segir er mikil óvissa ríkjandi varðandi makrílinn og bent hefur verið á það með rannsóknum að stofnstærðin sé stórlega vanmetin. Það stafi m.a. af því að við stofnstærðarmatið sé ekki tekið tillit til þess að skip ESB ríkja og frá Noregi hafi landað verulegum afla framhjá vigt á ákveðnu árabili. Sömuleiðis hafi verulegt brottkast á afla viðgengist. Fjallað var um þessa óvissu í stofnstærðarmatinu á vefsíðu LÍÚ fyrir skömmu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir