FréttirSkrá á póstlista

20.09.2012

Gæðamálin í stöðugri endurskoðun

Eins og greint var frá hér á heimasíðunni fyrr á árinu hafa gæðamál í fiskiðjuverum HB Granda í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði verið tekin föstum tökum undanfarin ár. Unnið er samkvæmt alþjóðlega gæðavottunarkerfinu International Food Standards (IFS) og þess er skemmst að minnast að samkvæmt úttekt í janúar sl. fengu öll þrjú fiskiðjuverin einkunnina 98%. Það þýðir að starfsemin og framleiðslan á öllum stöðunum er í hæsta gæðaflokki og markmiðið er að svo verði áfram.

Að sögn Bergs Einarssonar, gæðastjóra í landvinnslu HB Granda, eru gæðamálin í stöðugri endurskoðun og þróun. Hann segir að niðurstöður síðustu úttektar hafi verið einstaklega jákvæð því IFS sé staðall sem helstu smásöluaðilar innan Evrópusambandsins hafa komið sér saman um til þess að tryggja heilnæmi og öryggi matvæla sem og rekjanleika og áreiðanleika hvað varðar afhendingu og upplýsingar um viðkomandi matvæli.

,,Í fiskiðjuverunum á Akranesi og í Reykjavík, uppsjávarvinnslunni á Vopnafirði og loðnuhrognavinnslunni á Akranesi er alls staðar unnið eftir IFS gæðastaðlinum. Nýr staðall, IFS Food Version 6, tók gildi í júní sl. Nokkrar breytingar eru frá fyrri staðli, en helsta breytingin er sú að kominn er inn nýr kafli sem tekur sérstakega á matvælaöryggi, eða því sem nefnist ,,Food defense and external inspections“. Þessa dagana fer fram innri úttekt á IFS gæðakefinu á hverjum stað fyrir sig, auk þess unnið er að úttekt á gæðavottunarkerfum í fiskmjölsverksmiðjum félagsins á Vopnafirði og Akranesi,“ segir Bergur Einarsson en hann og Sturlaugur Daðason hafa umsjón með úttektunum í samstarfi við starfsmenn á hverjum stað.

Því er við þetta að bæta að árlega eru haldin starfsfræðslunámskeið fyrir fiskvinnslufólk HB Granda þar sem mikil áhersla er lögð á gæðamálin. Gunnnámskeið á vegum Starfsfræðslu fiskvinnslunnar hafa verið haldin um 20 ára skeið og í desember nk. verður fyrsta framhaldsnámskeiðið haldið. Stefnt er að því að allir starfsmenn landvinnslu HB Granda í Reykjavík og á Akranesi sæki það námskeið.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir