FréttirSkrá á póstlista

31.08.2012

Búið að frysta um 11.500 tonn af makríl- og síldarafurðum

Nú í vikunni brá svo við að gera varð hlé á vinnslu í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði vegna tímabundins hráefnisskorts. Samfelld vinnsla hefur verið í frystihúsinu frá því að veiðar á makríl og norsk-íslenskri síld hófust í sumarbyrjun og er þetta í fyrsta skiptið sem vinnsla stöðvast í nokkrar klukkustundir vegna vöntunar á hráefni. Ástæðan er sú að veður versnaði í vikubyrjun og þá treguðust makrílveiðar. Úr því rættist þó þegar leið á vikuna en nú er spáð rysjóttu tíðarfari næstu dagana og því gæti dregið úr veiðinni að nýju.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er nú búið að frysta um 11.500 tonn af afurðum á Vopnafirði og er makríll uppistaða þess magns eða um 8.700 tonn.

,,Þessi vertíð hefur gengið mjög vel. Veðrið í sumar hefur verið með eindæmum gott og það er vart hægt að tala um frátafir frá veiðum. Þær hafa a.m.k. ekki bitnað á vinnslunni fyrr en nú í vikunni en tíminn var notaður til þess að þrífa vinnslusalinn og –búnaðinn,“ segir Vilhjálmur en að hans sögn hefur makríllinn aðallega verið hausaður og slógdreginn fyrir frystingu en síldin hefur eingöngu verið unnin í samflök eða svokallaða flapsa. Allur aflinn á vertíðinni hefur verið unninn til manneldis á Vopnafirði og aðeins afskurður og fiskur, sem flokkast hefur frá í vinnslunni, hefur farið til bræðslu í fiskmjölsverksmiðjunni á staðnum.

Að sögn Vilhjálms hefur sala afurða gengið vel í sumar og afskipanir hafa verið tíðar. Í sama streng tekur Magnús Róbertsson vinnslustjóri sem segir að oft hafi afurðum verið skipað út frá Vopnafirði einu til tvisvar sinnum í viku.

,,Við höfum verið með mikið af fólki í vinnu og hér er unnið eftir fyrirfram ákveðnu frídagakerfi sem mælst hefur mjög vel fyrir,“ segir Magnús Róbertsson.

Af uppsjávarveiðiskipum HB Granda er það að segja að vinnslu á afla Lundeyjar NS lauk fyrr í dag og nú er verið að vinna afla úr Ingunni AK. Faxi RE er á miðunum um 60 sjómílur austur af Dalatanga en þaðan er um 100 mílna sigling til Vopnafjarðar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir