FréttirSkrá á póstlista

29.08.2012

Afkoma HB Granda hf. á fyrri árshelmingi 2012

• Rekstrartekjur samstæðunnar á fyrri árshelmingi ársins 2012 voru 93,3 m€, en voru 76,3 m€ árið áður
• EBITDA var 28,7 m€ (30,8%), en var 25,2 m€ (33,1%) árið áður
• Tap tímabilsins var 1,5 m€, þar af er gjaldfærsla vegna virðisrýrnunar aflaheimilda 21,6 m€. Árið áður var hagnaður 15,7 m€

Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2012
Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2012 námu 93,3 m€, samanborið við 76,3 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 28,7 m€ eða 30,8% af rekstrartekjum, en var 25,2 m€ eða 33,1% árið áður. Hærri rekstrarhagnaður skýrist fyrst og fremst af góðri afkomu loðnuvertíðar. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 2,0 m€, en um 4,2 m€ á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,3 m€. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 1,0 m€ og tap tímabilsins var 1,5 m€. Tekjuskattur að fjárhæð 2,5 m€ er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum.

Laun og launatengd gjöld námu samtals 29,0 m€ (4,7 milljarðar króna), en 28,3 m€ (4,6 milljarður króna) á sama tíma árið áður.


Alþingi samþykkti í lok júní 2012 ný lög um veiðigjöld sem fela í sér að veiðigjöld HB Granda hf. rúmlega fjórfaldast frá síðasta fiskveiðiári. Miðað við forsendur laganna nema áætluð veiðigjöld til greiðslu vegna fiskveiðiársins 2012/2013 12.686 þús. evrum (2,0 milljarðar króna). Eftir það er gert ráð fyrir stighækkandi sérstöku veiðigjaldi þar til veiðigjöldin á fiskveiðiárinu 2016/2017 ná 65% af sérstaklega reiknaðri rentu allra sjávarútvegsfyrirtækja samanlagt byggt á almanaksárinu 2014. Veruleg hækkun á veiðigjöldum félagsins lækkar rekstrarvirði þess.


Virðisrýrnunarpróf var framkvæmt á aflaheimildum í lok júní 2012 með því að reikna endurheimtanlegt virði þeirra. Niðurstaða virðisrýrnunarprófs sýnir að rekstrarvirði félagsins lækkar um 136.468 þús. evrur (22,3 milljarðar króna) eða úr 397.369 þús. evrum í 260.897 þús. evrur á fyrri hluta ársins 2012 sem skýrist af hækkun á veiðigjaldi. Í árslok 2011 var reiknað virði eigna félagsins talsvert umfram bókfært verð þeirra eða sem nemur 143.163 þús. evrum.
Eingöngu keyptar aflaheimildir félagsins eru færðar til eignar. Bókfærðar aflaheimildir í uppsjávarfiski hafa ekki rýrnað í virði, en bókfærðar aflaheimildir botnfisks hafa orðið fyrir 21.601 þús. evru (3,5 milljarða króna) virðisrýrnun.

Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 296,8 m€ í lok júní 2012. Þar af voru fastafjármunir 240,4 m€ og veltufjármunir 56,3 m€. Eigið fé nam 171,0 m€ og var eiginfjárhlutfall 57,6%, en var 54,4% í lok árs 2011. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 125,8 m€.

Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 23,3 m€ á fyrri helmingi ársins 2012, en 10,8 m€ á sama tíma fyrra árs. Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 10,0 m€. Fjármögnunarhreyfingar námu 28,1 m€ og voru nettó afborganir langtímalána þar af 29,8 m€. Handbært fé lækkaði því um 14,8 m€ og var í lok júní 6,4 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna
Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrri helmings ársins 2012 (1 evra = 163,1 kr) verða tekjur 15,2 milljarðar króna, EBITDA 4,7 milljarður og tap 0,2 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2012 (1 evra = 158,2 kr) verða eignir samtals 46,9 milljarðar króna, skuldir 19,9 milljarðar og eigið fé 27,0 milljarðar.

Skipastóll og afli
Skipastóll HB Granda hf. var óbreyttur.
Á fyrri helmingi ársins 2012 var afli skipa félagsins 23 þúsund tonn af botnfiski og 104 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Annað
Fjármálastjóri félagsins hefur verið skipaður framkvæmdastjóri tímabundið.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir